Færsluflokkur: Bloggar

Snjór og ófærð

Hér hefur allt verið í fári undanfarna daga, meiri snjór en elstu menn muna a.m.k. á norðvestur hluta Jótlands.  Við hjónin vorum í gistingu í Viborg í húsi við elstu götu borgarinnar og þegar við sáum að litli bílaleigubíllinn okkar var á bólakafi í snjó voru góð ráð dýr.  Þetta var bara eins og óveðursdagur á Íslandi.  Við höfðum daginn áður legið yfir veður og umferðarfréttum en í raun hvorugt trúað að færð og veður gæti orðið vandamál.  Sjónvarpið sagði frá bílum úti í skurðum, flutningabílum þversum og á hvolfi, seinum lestum og aflýstum flugum á Kastrup.  Ásbjörn ákvað að skilja bílinn eftir, hringdi í bílaleiguna og tilkynnti það.  Við örkuðum svo af stað með allan farangurinn, sem miðaðist auðvitað við að vera á bíl, áleiðis að brautarstöðinni í Viborg.  Við ákváðum að við gætum eins beðið þar, minn var auðvitað heppinn þurfti ekki að bíða nema í 3 korter, fékk þá lest alla leið til Kaupmannahafnar.  Ég beið hins vegar í 3 tíma eftir strætó til Skals, en heim komst ég um síðir.  Ásbjörn var í öruggu sæti, lestin sneisafull og stoppaði óvanalega lengi á ýmsum stöðum.  Hann komst þó alla leið og náði að fara að pútta með Palla í Fields.  Flugið heim til Íslands var auðvitað of seint svo hann var hinn rólegasti í góðu yfirlæti hjá golffélaga sínum.  Út á flugvöll komst hann svo eftir nettan taugatrekking vegna þess að lestin var of sein.  Inn komst hann eftir að hafa fengið sér fylgd þar sem löngu var búið að tékka inn og mátti svo bíða langt fram yfir miðnætti.  Til Reykjavíkur kom hann um 5 um morguninn eftir næstum sólarhringsferðalag. 

Hér voru nemendur á taugum í gær yfir að komast ekki heim um helgina og nú eru útsaumsnemarnir (vikukursistar) að huga að brottferð.  Á þessu bróderínámskeiði voru danskar konur, þýskar konur og einn þýskur karl.  Það hefur ekki gerst áður í vetur að hér hafi verið karl á námskeiði, hann hefur verið hér nokkrum sinnum áður og næst þegar hann kemur ætlar hann í vefnað.

Ég setti nokkrar myndir úr snjónum inn á síðuna.  Bestu kveðjur.


Danskt mál

Langt er síðan síðast og best að gera grein fyrir sínum málum sunnudagar eru ágætir til slíkra verka. 

Handboltavikan leið eins og aðrar vikur og dönsku námsmeyjarnar voru ýmist glaðar eða sorgmæddar eftir atvikum sem ég setti mig ekki sérstaklega inní þar sem áhugi minn á boltaíþróttum er ekki áberandi mikill.  Mitt holl hefur verið í vefnaði og prjóni undanfarnar vikur.  Ég er loksins búin að setja upp í vef 900 þræði af örfínu bómullargarni í 32 sm breiðan löber, afgangurinn af uppistöðunni verður notaður í diskamottur.  Þeim kom saman um það skólasystrum mínum að ég væri afar praktísk þegar um uppsetningu  væri að ræða.  Nú bíð ég hins vegar eftir garninu sem nota á í ívafið vonandi kemur það sem fyrst því  það á illa við mig að bíða lengi! 

Í prjóni er ég að gera tilraunir með hvali, ætla að sjá hvað úr því verður. 

Næsta vika er þemavika, í boði er skartgripa gerð og finessesyning.  Ég hef ekki áhuga á þessu tvennu og bað um að fá að sauma út, prjóna og vefa í staðinn, það var auðsótt mál.  Hvað eiga líka eldri dömur eins og ég að vera að gera annað en þeim finnst skemmtilegt!

Ég fór auðvitað í skólann í síðustu viku þ.e. dönskuskólann og ræddi þar fyrirspurn lesanda um snjóbretti.  Eftir töluverðar umræður komust samnemendur mínir og kennari að þeirri niðurstöðu að maður segði "at stå på snowboard og at stå på ski" en " at køre på skateboard" .  Danir eiga nefnilega ekkert  danskt orð yfir fyrirbrigðin.  Í framhaldi af þessari umræðu fór kennarinn á flug um það að Danir gætu lært af Íslendingum í sambandi við að búa til dönsk orð yfir nýja hluti og hugmyndir.  hún er mjög hrifin af því að við segjum tölva og tölvupóstur en spurð líka hvort við værum búin að finna orð fyrir I pod, ég lýsi eftir því hér með.

Á miðvikudaginn bauð hún Birthe vinkona mín okkur Ernu og tveimur dönskum sem voru líka hér í haust í heimboð.  Við fórum af stað eftir skóla og fengum smá skoðunarferð um nágrennið og síðan heim til hennar í kaffi og köku og spjall um prjónauppskriftir og fleira.  Þegar leið að kvöldmatartíma brugðu þau hjónin sér í eldhúsið og töfruðu fram dásamlega máltíð.  Fyrst báru þau fram ljúffenga súpu, síðan var nautakjöt og að lokum ís í hnetublúnduskál.  Að dönskum sið var svo endað á kaffi.  Við sátum og borðuðum og spjölluðum í 3 klukkutíma,  það er nokkuð sem við náum sjaldan heima í Laugarbrekku þ.e.a.s. tímanum. 

Hér er kalt í dag og örlar á snjókornum ég ætla að láta fara vel um mig við útsaum og bóklestur í dag.  Kærar kveðjur.


Spenna

Ja hérna hér hefði ekki haldið að ég gæti orðið svona spennt yfir handboltaleik.  Stemningin hér í húsinu var hreint ótrúleg píurnar voru að fara á límingunum þegar Íslendingar jöfnuðu aftur og aftur og komust yfir meira að segja.  Þær urðu líka að viðurkenna í lokin að Danir unnu ekki vegna þess að þeir væru betri heldur fyrir heppni.

Ég fór beint eftir skóla til Viborgar í dönskutíma, það var mjög gaman kennarinn spjallaði næstum í hálf tíma við mig, hinir nemendurnir biðu bara rólegir á meðan.  Henni fannst merkilegt að heyra að við búum til nýyrði á íslensku.  Það er nýlega farið að ræða hér hvernig Danir eiga að halda dönskunni og hvernig hægt væri að leggja meiri rækt við málið.  Hér nota menn ensk orð án umhugsunar og reyna ekki að þýða eða búa til ný. 

Húsmóðirin á H.C. Andersensvegi bauð til afmælis svo að ég lét mig hverfa úr tíma og dreif mig í dýrindis veislu þar á bæ ekki ónýtt það.

Allt við það sama í aðalskólanum, saumað út, byrjaði að rekja í vef í dag og get kannski byrjað á morgun að setja upp í stólinn.  Bestu kveðjur.


Uge 4

Síðasti pistill fjallaði töluvert um grænar grundir.  Morguninn eftir brá svo við að allt var orðið hvítt og komið frost.  Það hefur verið mjög fallegt vetrarveður og snjófölin hélst alveg þangað til í morgun að það er komin þýða.  Við höfum líka sungið um frost og snjó í hverri morgunandakt alla vikuna.  Nú blása hlýrri vindar og grasið kemur grænt undan snjónum. 

Vikan hefur verið undirlöggð af útsaumi og byrjað á nokkrum nýjum verkefnum, það er svolítið erfitt að venjast því að eiga að hafa margt í gangi í einu.  Er sem sagt byrjuð á dúk, svuntu og púðaskrauti.  Á fimmtudaginn var valfagsdagur og ég valdi tilbehör.  Rauða skinnið sem ég pantaði var komið og nú var bara að sníða hanskana.  Það gerði ég og saumaði þumlana á, ég á heilmikinn afgang og er að spá í tösku.  Held ég yrði ótrúlega glæsileg með rauða hanska og tösku í stíl. 

Á þriðjudagseftirmiddag var komið að fyrsta dönskutímanum í VUC.  Þangað stormaði ég við aðra konu ( getur maður ekki sagt það ).  Kennslan reyndist alveg einstaklingmiðuð, kennarinn lét mig skrifa kynningu, segja frá mér og mínum.  Hún las síðan skrifin og taldi mig helst vanta meiri orðaforða og þá væri best að lesa og svara spurningum úr texta og skrifa stíla.  Svo að ég fékk nokkrar bækur eftir Tove Ditlevsen bæði smásögur og skáldsögur.  Nú verður maður að læra heima og standa sig. 

Það verða rólegheit um helgina eins og stundum áður, við verðum bara 6 námsmeyjar á staðnum þar af 3 Íslendingar.  Kveðjur og takk fyrir skrifin í gestabók og athugasemdir.


Janúar helgi

Hér hefur vægast sagt allt verið með kyrrum kjörum nú um helgina.  Laugardagsmorgunn hófst með grenjandi slagviðri svo miklu að ég ákvað að fresta rápferð um Viborg.  Ég hafði eins og sönnum Íslendingi sæmir ætlað að kíkja á útsölur.  Um hádegi reif hann af sér og ég dreif mig í strætó og bauð sjálfri mér í kaffi til Önnu Birnu.  Hún stóð auðvitað í stórræðum með mann í vinnu við að hengja upp ljós og fleira.  Þegar leið á eftirmiðdaginn hrönnuðust skýin upp og flóðgáttir himins opnuðust einu sinni enn svo mjög að ég hélt að ég yrði veðurteppt en til þess kom nú sem betur fer ekki.

Kvöldið leið við sjónvarpsgláp fastir liðir eins og venjulega fyrst Matador og síðan Barnaby.  Til marks um að ég er ekki komin alveg í gang aftur þá sat ég auðum höndum við sjónvarpið, þarf nauðsynlega að finna mér eittthvað að prjóna. 

Í morgun dreif ég mig í göngutúr niður að firði í dásamlegu janúarveðri ( myndir úr þeim göngutúr eru komnar inn ).  Rámi hundurinn við eitt húsanna sem stendur við göngustíginn gelti eins og hann gerði í allt haust og mér var eiginlega létt, var nefnilega farin að halda að hann væri farinn til feðra sinna því hann lét ekkert á sér kræla í vikunni þegar ég gekk fram hjá.  Annars er mjög undarlegt að sjá tjarnir á grænum túnum og allt á floti.  Hér eru tré farin að laufgast og elstu menn muna ekki annað eins hitinn er langt fyrir ofan meðallag.  Mér finnst nú samt oft hráslagalegt í allri rigningunni.  Talandi um veður ég var ekki nema rétt komin inn úr göngutúrnum þegar dimmdi í lofti og rigningin buldi á rúðunum. 

Síðan hef ég setið og saumað út hér í herberginu mínu.  Ég er búin að horfa á sjónvarpsfréttir frá í gær, spaugstofuna og evróvision.  Ekki má gleyma að ég setti inn myndirnar og það tekur fáránlega langan tíma en vonandi hefur einhver gaman af.  Bestu kveðjur.


Alvara lífsins

Allt tekur enda líka löng jólafrí og nú er fyrsti skóladagurinn liðinn.  Ferðalagið í gær gekk vel, flugið fínt, lestarferðin ágæt og strætóferðin stutt og góð.  Ég náði í afganginn af afgöngunum í kvöldmatnum og heilsaði uppá gamlar og nýjar skólasystur. 

Ég er í holli 2 með eintómum dönum sem er bara fínt þá freistast maður ekki til að tala íslensku.  Við byrjuðum í dag í fatasaum og það er augljóst að ég verð að reikna með fáeinum dögum til að komast í gang.  Á morgun er valfag og nú má velja á milli tegning og tilbehør.  Ætli ég velji ekki tilbehør það hljómar spennandi, veit meira um það síðar.

Fór í fínan göngutúr niður að firði í roki og smá rigningu, hér er allt á floti alls staðar og vond veðurspá.  Það var merkilegt að koma úr frostinu á fróni og hingað í 7 stiga hita.  Það sást vel úr lestinni hvað akrar og engi eru blaut, heilu tjarnirnar, minnti kannski helst á hrísgrjónaakra annarrs staðar á hnettinum.  Svo ekki sé talað um skrúðgræn túnin.  Mér er sagt að þessi hlýindi og bleyta séu mjög óvanaleg á þessum árstíma. 


Afrakstur haustannar

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir. 

Ég hef í dag dundað mér við að setja inn myndir af afrakstri haustsins.  Ég verð að segja að þetta bloggforrit er ekki mjög lipurt, það tekur rúman hálftíma að setja inn 10 myndir.  Það er sem sagt ástæðan fyrir fáum myndum á þessari síðu.

Vona að þið hafið haft það gott um jól og áramót, ætli ég bloggi ekki næst þegar ég kem til Danmerkur.


Komin heim

Komin heim í heiðardalinn!

Ég lagði af stað á föstudagsmorgun eftir að hafa sofið yfir mig í fyrsta sinn í áraraðir.  Ég náði þó að fara í morgunandakt og kveðja hópinn.  Síðan var strætó og lest og Ragnheiður tók á móti mér á Hovedbane.  Við mæðgur röltum aðeins og hreinsuðum til í nokkrum búðum og fórum svo heim á Gurrevej, elduðum okkur kjúlla og horfðum á fyrri hluta Midt om natten.

Á laugardaginn var skeiðað í fleiri búðir, Ragnheiður hafði lofað að sinna búðarerindum fyrir hina og þessa.  Við tókum líka rispu í Rødøvre molli, velgeymt leyndarmál ég hafði amk ekki heyrt um það fyrr.

Þegar við komum heim á Gurruveg fréttum við af miklum óeirðum á Nørrebru rétt hjá gamla staðnum hennar Ragnheiðar þannig að við fylgumst með og veltum því fyrir okkur hvort við ættum að hætta við að fara í Tivoli um kvöldið.  Þar sem við erum kjarkfólk létum við ekki smá óeirðir stoppa okkur það voru ekki nema tæplega 300 handteknir.  Það er alltaf gaman að fara í Tivoli reyndar margt fólk en orðið jólalegt og fallegt.

Sunnudagurinn fór svo í heimferð alla leið hingað til Húsavíkur.


Santa Lusia

Undarlegar, yndislegar, syngjandi verur birtust mér löngu fyrir fótaferðatíma í morgun.  Um verurnar lék eldbjarmi og gerði upplifunina enn dularfyllri.  Þegar ég var búin að plokka tappana úr eyrunum og setja upp gleraugun ( þurfti ekki að setja tennurnar í mig ) sá ég að þarna voru á ferð kennarar, skólastjórar  og annað starfsfólk skólans. Ein var með Lúsíukrans á höfði og hinar héldu á kertum, allar hvítklæddar og sungu eins og englakór, blíðlega og fallega Santa Lúsía.  Önnur skólastýran sagði blíðlega við mig: Það er morgunmatur kl korter í átta og færði mér epli með logandi kerti og hjartalaga köku.  Síðan liðuðust þær syngjandi áfram eftir ganginum og vöktu hinar skólastúlkurnar.  Þegar við komum niður var búið að leggja á borð og kveikja á fullt af kertum.  Við borðuðum og sungum dönsk jólalög til kl að verða níu.  Þetta var alveg yndislegur morgun.

Í saumatíma var ég reyna að koma lagi á kjólinn minn ég saumaði og rakti upp, var orðin súr og svekkt og langaði bara að henda honum í tunnuna.  Það hvorki gekk né rak allan daginn, ég velti því fyrir mér hvort ég væri bara ekki á rangri hillu.  Eftir skólatíma kl þrjú fór ég í bæinn að kaupa lestarmiða og rápa.  Saumakennarinn var á aftenvakt og ég dreif mig aftur í kjólasauminn.  Ég hafði fengið hugmynd í strætó, ég rakti berustykkið upp og sneið og saumaði nýtt og nú held ég að þetta gangi.

Á morgun er síðasti dagurinn hjá mér fyrir jól og enn nóg að gera.


Jólatónleikar

Bjartur og fallegur dagur fram að kvöldmat, síðan hefur rignt duglega.  Hér ræða menn um óvenjulega blautt haust og hlýtt.  Ég held að það hafi rignt eitthvað næstum hvern einasta dag síðan í október.

 Í morgun tókst loks að klára kápuna mína nema ég á eftir að pressa hana, ég minnist þess ekki að hafa verið jafn lengi með nokkra flík, ég held ég verði bara ánægð með hann.

Eftir hádegi var julehygge, það var föndrað og drukkið glögg og borðaðar vöfflur með.  Við þæfðum litla skerma utan um jólaseríu eða utan um kertaglas.  Það var Inge Marie sem stóð fyrir föndrinu hún er alveg frábær konan sú.

Í kvöld fór ég á jólakonsert í Skals kirkju, þar söng Viborgarkórinn.  Það var gaman að heyra hvað allir tóku kröftuglega undir þegar sunginn var fjöldasöngur.  Þetta var yndisleg stund við söng og orgelspil.  Við íslensku pigerne vorum að grínast með að okkar skemmtanir væru eins og í gamla daga.  Sem sagt helsta skemmtun okkar er að fara til kirkju.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigga í Skals

Höfundur

Sigríður Jónsdóttir
Sigríður Jónsdóttir
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Svartsaumsdúkur
  • Svartsaumur
  • Púðaband
  • Stoppsaumur
  • Askja

Tenglar

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband