Sunnudagur, 11. mars 2007
Hjólatúrar
Er ekki tæknin frábær, hér sit ég á jóskri grund, á sunnudagskvöldi og hlusta á Orð skulu standa á Rás 1 frá því í gær. Einn af uppáhaldsútvarpsþáttum mínum.
Nú er vorið örugglega að nálgast ef ekki komið hér var 10 stiga hiti í dag, reyndar nokkuð hvasst og næstum jafn gott í gær. Í gær tók ég hjólið út úr skúr og fór í fyrsta hjólatúr vorsins, mér hafði tekist að fá Ólöfu skólasystur mína með mér og það gerði ferðina auðvitað mikið skemmtilegri. Við hjóluðum langleiðina til Möldrup, fyrri hluti leiðarinnar var léttur og skemmtilegur en þegar við snerum við kom í ljós af hverju . Við höfðum nefnilega haft vindinn í bakið og nú þurftum við að berjast á móti honum til baka. Okkur tókst það að sjálfsögðu en það verður að segjast að bakhlutinn er ekki í góðri æfingu og þarf að þjálfa betur. Það gerðum við strax í dag nema nú fórum við í hina áttina og byrjuðum á móti vindi, við hjóluðum alla leið til Lögstrup 8 km. Í bakaleiðinni höfðum við svo vindinn í bakið og vorum heldur ánægðar með okkur. Það er frábært að ferðast á þennan máta, horfa í kringum sig, finna vor ylminn í loftinu og auðvitað líka minna góða lykt.
Ég var í dag líka að glíma við Barndommens gade eftir Tove Ditlevsen átti að skrifa útdrátt úr sögunni eins og aðrir 10. bekkingar. Minn þurfti ekki að vera mjög bókmenntalegur en ég átti að sýna orðaforðan. Það er nú meira hvað sú saga er dapurleg en vel skrifuð er hún því verður ekki neitað. Næst á ég að lesa aðra bók eftir Tove sem heitir Gift. Kennarinn lét mig líka fá nokkur verkefni um orðanotkun sem ég leysti og á að skila á þriðjudaginn.
Ég er að ráðast í risastórt verkefni í vefnaði eins og ég hef minnst á, ætla að vefa dúk á borðstofuborðið. Hann er úr bómull og hör, uppistaðan er bómull 1884 þræðir og þó að ég sé nú þegar búin að sitja við og draga í haföldin í nærri 5 klukkutíma er ég ekki búin með þriðja hlutann enn. Svo að morgundagurinn er fyrirsjáanlegur ég mun sitja við og draga í haföld og örugglega ekki gera neitt annað. En ég hlakka mjög til að byrja að vefa og það drífur mann áfram.
Bestu vorkveðjur frá Skals.
Um bloggið
Sigga í Skals
Myndaalbúm
Tenglar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.