Laugardagur, 28. apríl 2007
Vorblíða
Ég held að það að reyna að setja myndir inn á þetta blogg sé sérstök þolinmæði þjálfun. Ég ætlaði að setja inn myndir af vorinu hér í Danmörku og er búin sð bíða í þrjú korter meðan vinnsla fór fram þegar ég loggast bara út ( góð ísl ). Vonandi er kerfið ekki allt svona lélegt heldur tenging skólans, hvað með það reyni aftur síðar.
Þar sem framundan er Berlinar ferð, studietur, ákváðum við Erna að framlengja dvölina þar. Við förum af stað í rútu á mánudaginn og þær koma til baka á fimmtudaginn, en við ætlum að vera til sunnudags. Ég er búin að fá fyrir okkur gistingu áfram á hótelinu svo að við þurfum ekki að flytja. Ég bauðst til að finna fyrir okkur lestarmiða á netinu þóttist fullfær um það eftir að hafa keypt miða til Kaupmannahafnar á netinu. Á föstudaginn fann ég fyrir okkur ódýra ferð og var heldur ánægð með mig, en því miður ég gat ekki prentað miðana út, þeir koma nefnilega ekki sem viðhengi eins og hjá dönsku járnbrautunum. Ég leitað um allt á þýsku járnbrautarsíðunum og sendi hjálparbeiðnir um allt kerfið með tölvupósti. Skemmst frá því að segja að ég var næstum búin að sætta mig við að peningarnir mínir væru tapaðir. Alla helgina var ég að ergja mig á þessu og á mánudaginn las ég einu sinni enn tölvupóstinn sem ég fékk án viðhengis. Þar var þá boðið upp á símaþjónustu, svo að ég ákvað að hringja bara til Þýskalands. Ég gerði það og fékk samband við elskulega þýska símadömu sem leiddi mig í gegn um frumskóginn og miðana prentaði ég út!!! Þarf ekki að taka fram að samtalið fór fram á þýsku sem varla hefur verið notuð í 30 ár svo mín var nokkuð ánægð með sig - aldrei að gefast upp!!!
Um síðustu helgi var mér boðið í gistingu á H.C. Andersens veg með prjónadót. Við Anna fórum þó fyrst í frábæran göngutúr rúma tvo tíma í kringum vötnin í Viborg ótrúlega falleg leið. Þeir eru víst ekki alveg blankir sem eiga hús við vatnsborðið, glæsilegir bílar og bátar í stæðum segja sína sögu. Við prjónuðum svo langt fram á kvöld þó að börnunum þætti við úthaldslitlar.
Mánudagurinn var fyrsti dagur í nýju valfagi nú er það öskjugerð hjá mér. Það lofar bara góðu er mikil nákvæmnisvinna og hver millimetri er mikilvægur. Eftir skóla fórum við Erna í gönguferð niður að firði í dásamlegu veðri.
Þriðjudagur var helgaður útsaumi hjá Björk og ég hélt áfram með dúkinn minn, fórum í bæinn og borðuðum á veitingastað dekurdúfurnar!
Mið, fimm og föstudagur voru útsaumsdagar hjá Lone. Ég ákvað að tími væri kominn til að borðið mitt sem ég smíðaði í Flensborg í menntaskóla, fengi útsauminn sem það átti að fá í upphafi. Ég ákvað að þrykkja og sauma, byrjaði að teikna skapalónin og merkja miðju á efninu og svo fór allur fimmtudagurinn í að þrykkja. Þrykkti í þrennu lagi, fyrst blöðin, síðan dökku blómblöðin og að síðustu þau ljósu. Í gær gat ég svo byrjað að sauma. Aðal umræðan hefur verið sú hvað hver og ein ætlar að taka með sér í rútuna til að vinna, mér sýnist ég gæti kannski saumað, en tek líka prjónadót til öryggis. Skilst að það sé afar vont og leiðinlegt að vera aðgerðalaus í svona autobana rútuferð!
Fór á fimmtudaginn í hjólatúr til Hjarbæk, lítinn sætan bæ í 8 km fjarlægð og hina dagana hefur verið gengið. Allan föstudaginn sátum við úti og saumuðum út, vikan hefur verið í einu orði dásamleg, sól og blíða og 20 og eitthvað stiga hiti og eiginlega engin föt nógu köld og það er bara apríl. Það er líka alveg frábært að fylgjast með náttúrunni, trén blómstra hver tegundin eftir aðra og á hverjum degi eitthvað nýtt að sjá. Bestu kveðjur.
Um bloggið
Sigga í Skals
Myndaalbúm
Tenglar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
úff þessi ruslpóstsvörn er að fara með mig, summan af 8 og 13... tók hellings tíma!!
Héðan af Breiðvanginum er allt gott!
Ég er farin að hlakka mikið til að fá þig heim :)
Elín Ásbjarnar 4.5.2007 kl. 02:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.