Sunnudagur, 20. maí 2007
Vefa mjúka, dýra dúka!
Hér hefur allt verið vægast sagt með kyrrum kjörum um helgina, höfum verið hér 4 útlendingar, frá sitt hvoru heimshorninu. Fallegur dagur í dag léttskýjað og 18 stiga hiti. Brá mér í hjólatúr ætlaði bara stutt en svo er bara ótrúlega gaman að hjóla um nærsveitirnar. Nú er mælirinn loksins kominn á hjólið svo að ýmsar staðreyndir eru nú ljósar t.d. meðalhraði fyrri hluta leiðarinnar 20 km á klst en til baka aðeins 17,3 (mótvindur).. Mesti hraði 51 km á klst (augnablik niður brekku) svo er tíminn og sitt hvað fleira, auðvitað allt annað að vita hvað maður er að gera!! Sat svo úti í garði og húllfaldaði nýja dúkinn, maður verður að eiga dúka til skiptanna. Þessi á að fá svartsaumsbróderí ( ætla að hafa það í gyltum tón ekki svart ).
Á fimmtudaginn var uppstigningardagur og auðvitað frí en Danir eru sniðugir þeir gefa líka frí í öllum skólum á föstudeginum og mér skilst að margir taki sér frí í vinnu. Á föstudaginn var DSB døgnet, járnbrautarsólarhringurinn. Hægt var að ferðast um allt Jótland fyrir 49 kr alla Danmörku fyrir 99 kr og ef fara átti til Bornholm 149 kr. Þetta var auðvitað gráupplagt fyrir okkur Önnu Birnu og Axel ( ókeypis fyrir börn). Við ákváðum að fara til Ribe, lögðum af stað upp úr kl 8 áleiðis til Skive, Struer og svo suður til Esbjerg og Ribe. Þar áttum við frábæran dag, bærinn fullur af fólki því að það var túlípanadagur, við skildum ekki alveg út á hvað það gekk því að við sáum enga túlípana nema úr pappír. Við fórum á mjög skemmtilegt víkingasafn og síðan í dómkirkjuna og auðvitað alla leið upp í turn. Þaðan sást um allar sveitir og hvað bærinn er lítill. Kirkjan sjálf er mjög sérstök, eldgömul að uppruna en hefur verið endurbætt upp úr 1980 með t.d. mjög framúrstefnulegri altaristöflu, okkur listfræðingunum fannst ekki nógu gott samræmi í endurbótunum. Það kom að því að halda heim, höfðum það gott til Fredrecia. Þar kom hins vegar berlega í ljós að fleirum en okkur hafði þótt snjallt að nýta sér tilboð dönsku járnbrautanna. Við máttum gjöra svo vel að standa uppá endann mestan hluta leiðarinnar til Langå og það hefði í sjálfu sér verið í lagi ef ekki hefðu tugir annara staðið líka. Maður hékk í einhverju sem náðist tak á og nánast hvíldi í fangi næsta manns og eins og vænta mátti var orðið heldur lítið súrefni og nokkuð heitt. Allt gekk þó upp fyrir rest og við komum til Viborgar um 11:30, náðum sem sagt 8 tíma lestarferð fyrir 49 kr !!!!
Ekki má gleyma að segja frá því að á fimmtudaginn tókst mér að klára að vefa dúkinn góða, það var afar góð tilfinning eftir óteljandi vinnustundir og satt að segja hélt ég á tímabili að ég yrði að fá að hafa stólinn með mér heim. Ég fæ svo hjálp í vikunni við að laga villur og ganga frá gripnum, þarf auðvita ekki að taka fram að hann verður flottur kominn á borðið heima í Laugarbrekku!!!
Bestu kveðjur úr dúkalandi!
Um bloggið
Sigga í Skals
Myndaalbúm
Tenglar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.