Föstudagur, 1. júní 2007
Stúdent
Á fimmtudaginn fyrir hvítasunnu lagði ég af stað um hádegi til Íslands, tilefnið útskrift. Ég tók strætó, rútu og lest frá Vejle. Þegar ég ætlaði að setjast í sætið mitt sá ég að sessunautur minn var með ól um handlegginn og spurði: Ertu með hund? Nei en hún var með kött og það kafloðinn það sá ég þegar ég var komin á áfangastað því að fötin mín voru öll í hárum. Ég var sem sagt lánsöm að vera ekki með kattaofnæmi því að kötturinn lá undir sætinu mínu alla leiðina til Kaupmannahafnar. Á aðalbrautarstöðinni stoppaði lestin og flestir fóru út en lestin var stopp í nokkrar mínútur. Eldri maður stóð upp og teigði úr sér, kom svo til mín og spurði hvort ég væri að fara út á Kastrup. Síðan sagði hann mér að hann væri frá Brasilíu og á leið þangað. Hann var rétt búinn að bjóða mér með sér til Brasilíu þegar maður hleypur fram hjá, grípur tösku mannsins, út úr lestinni og upp tröppur sem þar eru. Sá gamli var fljótur að átta sig, rauk út á eftir þjófnum og orgaði á eftir honum passport og tikket. Þjófurinn yðraðist sem betur fór og kastaði töskunni niður stigann. Í skjóðunni var vegabréfið, farseðlarnir og allir peningarnir. Þegar við kvöddumst við Kastrup hafði hann komið verðmætunum fyrir í brjóstvasanu og marg sýnt mér.
Elín útskrifaðist frá Menntaskólanum við Hamrahlíð á laugardaginn, athöfnin var fín, tónlist og ræður og auðvitað einkunnaafhending. Stúdentarnir voru 164 svo að allt tók þetta sinn tíma. Á eftir héldum við kaffiboð fyrir nánasta skyldfólkið okkar heima hjá Nínu og Venna. Við áttum góðan dag saman og nýstúdentinn ljómaði í gulljakkanum og gullskónum sínum.
Á sunnudaginn fór öll stórfjölskyldan út á Hrafnistu til að pútta með afa og síðan bauð hann í kaffi og köku aldeilis myndarlegt kaffiboð það. Um kvöldið fórum við út að borða á Sjávarkjallarann, fengum marga mjög framandi rétti og flesta mjög góða. Þjónustan var frábær en aumingja þjónninn lenti í að hvolfa bakka með mörgum glösum yfir okkur Ásbjörn, er með reynslu af slíku frá Tékklandi.
Af stað aftur á mánudagsmorgun, allt eins og venjulega nema það var þriggja kortera seinkun áður en vélin lagði af stað og flugstjórinn sendi aðstoðarmann sinn út að athuga með hurð sem hann taldi að væri ekki lokuð og grínaðist svo með að hann þyrði örugglega ekki aftur inní vélina. Ég náði samt lestinni minnni á Kastrup og var einn ferðafélaginn hundur, svo það má búast við ýmsu!!
Þriðjudagur var helgaður útsaum, sídegis og langt fram á nótt voru þrumur og eldingar þannig að ljósin nötruðu í loftinu og hellirigning fylgdi.
Við íslendingarnir fórum með strætó um hádegið til Farsø og þangað sótti Björk útsaumskennari okkur. Hún keyrði með okkur alla leið að Vesterhavet og á stað sem heitir Svinkløv Badehotel, þar fengum við okkur kaffi og horfðum út á hafið æðislegur staður. Síðan keyrði hún með okkur heim til sín í Løgstør, sýndi okkur bæinn og trakteraði með fínum mat
Um bloggið
Sigga í Skals
Myndaalbúm
Tenglar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.