Miðvikudagur, 13. júní 2007
Ferðalög
Ég get nú um stundir aðeins tjáð mig á þessu alþjóðlega svæði, það er að segja tölvupósturinn minn liggur niðri því að nú skal skipt um þjónustuaðila fyrir skólann. Það hefði nú eiginlega mátt vara mann við, veit ekki hvaða netfang ég fæ eða hvenær.
Ég fór í frábær ferðalög síðustu daga. Fyrst á fimmtudaginn, þá sótti Birthe skólasystir frá því fyrir jól okkur Ernu og keyrði með okkur norður yfir Aggersund á Limafirði og að stað sem heitir Vejlerne. Þar er mikið friðland fyrir fugla og búið að útbúa aðstöðu fyrir fuglaskoðara. Þar dró hún upp köflóttan dúk og bauð upp á morgunkaffi og ný rúnnstykki. Síðan keyrðum við áfram og nú til að skoða hæsta fuglabjarg í Danmörku Bulbjerg, sem hún sýndi okkur stolt. Þar voru alls konar mávar en eins og þeir sem þekkja mig vita þekki ég afar fá flugdýr með nafni, hafði samt gaman af. Þarna voru líka grafin inn í bergið risastór birgi sem Þjóðverjar byggðu á stríðsárunum til þess að vakta hafið. Næsti áfangastaður voru Svinkløverne, staður þar sem er mjög fallegt útsýni yfir sjóinn. Þetta var skemmtileg leið hún þekkir svæðið vel og keyrði ekki alfaraleið. Á Svinkløverne var síðan áð um stund og snæddur hádegisverður með köflótta dúknum og köldum bjór ásamt öðrum veitingum. Við skoðuðum líka lítið fiskiþorp þar sem bátarnir eru dregnir á land með spili, engin bryggja. Næst keyrði hún með okkur til Løkken þar er flott strönd og við fórum auðvitað í sjóinn, nokkuð kalt en ströndin hvít og falleg. Áfram var haldið til Lønstrup þar er viti umlukinn sandi sem fýkur fram og til baka, Birthe sagði okkur að sandurinn hefði verið allt öðru vísi síðast þegar hún kom. Þetta er eins og sandfjall sem færist úr einum stað í annan. Bærinn er líka mjög fallegur gæti vel hugsað mér að fara þangað aftur. Við Mårup kirkju fengum við síðdegiskaffi, nokkuð seint dagskráin hafði aðeins færst til, frúin dró fram prímus og lagaði kaffi og dró fram heimabakaða köku. Kirkjan sú er komin nokkuð nálægt bakkanum og þó nokkuð af kirkjugarðinum er horfinn í hafið. Síðan keyrðum við heim til þeirra hjóna og Mogens beið með fína máltíð úti í garði, það gleymdist að segja að veðrið var alveg frábært 27 stiga hiti og sól. Svo var okkur skilað heim undir miðnætti.
Á föstudeginum fór ég af stað í bítið til fundar við samstarfsfólk mitt í Borgarhólsskóla, þau voru að skoða skóla í Kaupmannahöfn. Það urðu fagnaðarfundir og margt skrafað. Fyrstu nóttina var ég rétt að festa blund með eyrnatappa og auðvitað sjónlítil, þegar ég verð vör við birtu í herberginu og mannamál. Ég reif tappana úr eyrunum og setti upp gleraugun og togaði í sængina ( síðasta sem ég hugsaði áður en ég gleymdi mér var að það væri líklega í lagi að liggja ber þar sem ég væri ein í herbergi, það var óbærilegur hiti). Sá sem stóð á gólfinu hjá mér spurði á ensku hvernig ég hefði komist inn í herbergið og afhverju ég hefði ekki tékkað út. Ég reyndi að svara einhverju en spurði hvort ég mætti ekki klæða mig og ræða svo við hann. Fór svo klædd niður í lobbí og spurði á dönsku hver hefði komið í herbergið mitt. Ég gat svo sannað að ég hafði tékkað inn þá um daginn en þau voru fjögur að yfirheyra glæpamanninn. Þetta var svo auðvitað tölvan sem ekki stóð sig vores coputer, ég bað um vinsamlega að fá ekki fleiri heimsóknir þessa nótt. Verð að viðurkenna að þetta var heldur óþægileg upplifun. Á laugardeginum fórum við í rútuferð með Guðlaugi Ara mjög skemmtilegt og um kvöldið í siglingu út í Flakfortet. Flakfortet er gamalt virki en var aldrei notað í stríði, þar borðuðum við og síðan í land á smá pöbbarölt. Sunnudagurinn jafn sólríkur og heitur, kringum 30 stigin, var upplagður í siglingu um sundin og síðan í Kongens have og Rosenborgarhöll. Skoðuðum dýrgripina þar og meðal þeirra voru sérstakar silfuröskjur til að geyma naflastrengi litlu prinsanna og prinsessanna. Menn höfðu þá trú að slíkt gæti forðað frá sjúkdómum og óáran. Skoðuðum líka Botaniskhave en það var orðið óbærilega heitt svo það verður gert betur síðar. Hélt heimleiðis á mánudag í sama hita sem varð til þess að lestirnar máttu ekki keyra hraðar en á 80 svo að það voru seinkanir og aflýsingar.
Nú erum við á endasprettinum hér í Skals svo að allir eru á bólakafi að klára og ganga frá. Ofni dúkurinn og blómadúkurinn eru straujaðir og fínir. Allt mun þetta hafast!
Um bloggið
Sigga í Skals
Myndaalbúm
Tenglar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hæ elsku mamma
Takk fyrir athugasemdina á okkar síðu!
Gott að heyra að þú hafir það gott og að þú skemmtir þér í Köbeninni minni
Sakna þín og hlakka til að sjá þig!
Ragnheiður 18.6.2007 kl. 20:10
Sæl Sigga og bestu þakkir fyrir síðast.
Sé að Erna, gömul vinkona mín frá Eyjum hefur verið með þér í Skals í vetur. Ég sendi þér tölvupóst á Þekkingarnetfangið - gáðu hvort hann hefur borist..
Kv. til ykkar Ernu á lokasprettinum. Flottar "afurðir"!
Björg
Björg Sigurðar 21.6.2007 kl. 10:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.