Laugardagur, 9. september 2006
Síðasta vika
Laugardagsmorgunn kl 10, ég er búin að lesa Moggann á netinu með kaffisopa sem ég lagaði sjálf ummmm! Ég hef verið að hugsa um hvað tæknin er frábær, ég ber nefnilega stundum saman vistina í Þýskalandi fyrir tæpum 30 árum. Þá sendu mamma og pabbi nokkra Mogga með löngu millibili og auðvitað voru þeir orðnir margra daga gamlir. Fyrir utan nú skypið, maður getur blaðrað eins lengi og maður vill án þess að borga krónu fyrir. Horft á fréttir í sjónvarpi og hlustað á útvarp, ótrúlegt.
Vikan var tileinkuð buxum, ég bjó til grunnsnið, breytti því, sneið og saumaði. Þetta var frekar létt þar sem ég hef oft saumað buxur. Það fór þó ekki svo að ég lærði ekki eitthvað. Ég lærði betri aðferð við að setja rennilása í pils og ósýnilegan hafði ég aldrei sett í neitt. Nú á ég nýjar flauelisbuxur, mjög fínar.
Morgunandaktin var með ýmsu móti þessa viku,t.d. var sýnd mynd um konu sem byggði hús (kofa) uppi í trjám, við festum tölu á efni og kennarinn sagði okkur hvers vegna talið væri að karlar hneppa til hægri og konur til vinstri. Skýringuna sagði hún vera að um 13- 1400 hefðu hermenn fengið leyfi til að hlýja hægri hönd sinni með því að stinga henni inn í jakkann. Ég benti henni á aðra skýringu nefnilega þá að karlar klæddu sig sjálfir en konur voru klæddar (þjónusta). Það var líka sagt frá sýningu þar sem listamennirnir höfðu lagt allt upp úr endurnýtingu. Auðvitað sungum við um landbúnaðinn t.d. 10 erindi á föstudaginn!
Á miðvikudaginn fór ég heim með skólasystur minni henni Birthe. Hún hafði samið við manninn sinn hann Mogens að laga fyrir mig hjólið mitt. Þau eiga heima í bæ sem heitir Örum, þangað er um 20 mín akstur, svo að hún bauð mér að gista. Eftir huggulegann kaffisopa í fallegri stofu fórum við í göngutúr um Öbakken. Það er mjög fallegt svæði með hærri hæðum en ég átti von á í Danmörku, yndislegu lyngi og trjám sem eru þó ekki þéttari en svo að maður sér hæðirnar vel. Þarna var fé á beit og sást vel til næstu bæja. Þegar við komum til baka var Mogens búinn að laga hjólið, losa handbremsuna frá og smyrja . Síðan elduðu þau hjón þá bestu aspas súpu sem ég hef smakkað og grilluðu kjöt alger veisla. Eftir matinn kenndi Birthe mér að flétta pappírskörfu og band úr hjólaslöngu.
Á miðvikudaginn var litteratur tími, hann var að mestu um norræna goðafræði svo að nú skildi ég heilmikið gat meira að segja sagt hvenær íslendingar urðu kristnir. Hann talaði um æsi, jötna, Óðinn, Þór og allt sem þessu tengist.
Á fimmtudaginn eftir skóla kom ekki annað til greina en að skella sér á bak gullfáknum. Ég hjólaði að golfvelli hér í grenndinni, ferðin tók klukkutíma og mér telst til að þetta séu einir 15 km. Það er skemmst frá því að segja að það er betra að hjóla þegar hjólið er ekki í bremsu, þetta var bara frábært.
Um bloggið
Sigga í Skals
Myndaalbúm
Tenglar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.