Föstudagur, 22. september 2006
Ferðalag og fleira
Þá er að koma sér að verki aftur. Undanfarnir dagar hafa verið mjög viðburðaríkir og skemmtilegir. Fyrst og fremst fórum við Ásbjörn í frábært ferðalag, eins og sumir vita finnst mér ekki leiðinlegt að ferðast. Við fórum á fimmtudag til bæjar sem heitir Lögstör og er sunnanvert við Limafjörðinn miðjan. Þar gistum við á fínu hóteli og keyrðum þaðan í ýmsar áttir næstu daga. Á föstudeginum keyrðum við beint yfir Limafjörðinn í norður og út að Skagerak, Jammerbugten. Þar skoðuðum við fallega strönd og áttum heiminn, ekki nokkur sála sjáanleg. Síðan keyrðum við til Hirsthals, þar skoðuðum við mjög skemmtilegt sædýrasafn, það ku vera eftir því sem segir í bæklingnum það stærsta í Evrópu. Næst lá leið okkar til Skagen, fórum fyrst í bæinn, röltum og skoðuðum gömul hús, fórum síðan á Skagen museum, þar eru myndir eftir Michael og Önnu Ancher og P.S. Kröyer. Sumar þeirra kannast maður við og mest mjög gaman að skoða. Þá var komið að aðal stað dagsins, Skagen. Við fórum á bílastæðið að ná í bílinn, var þá ekki búið að sekta okkur fyrir að borga ekki í bílastæðasjóð Skagen bæjar 510 dkr takk. Við höfðum hvorugt tekið eftir neinu sem benti til þess að það ætti að borga, svo að eftir þetta var ætíð gætt vandlega að öllu slíku. Við komumst til Skagen, gengum út á oddann og út í sjóinn, það er alveg frábært því að öldurnar koma úr tveimur áttum að manni bæði frá Skagerak og Kattegat. Ég hef alveg gleymt að nefna að þennan dag var 25 stiga hiti og við hjónin auðvitað á stuttbuxum.
Á Laugardeginum var aftur ekið á sama stað yfir Limafjörðinn og stefnan tekin á Hanstholm. Þar skoðuðum við höfnina, fórum út á allar bryggjur eins og siður er þorpara að vestan, sáum Norrænu meira að segja. Síðan leituðum við lengi að bænum en komumst að því staðurinn er bara smábær, höfðum af einhverjum ástæðum aðrar hugmyndir! Næst fórum við áfram í suður skoðuðum þorp við sjóinn þar voru nokkuð margir á sjóbrettum (heitir kannski e-ð annað). Allavega lét fólkið vindinn bera sig með einum eða öðrum hætti. Flestir voru með segl en einn var með einhverskonar fallhlíf sem vindurinn þeytti áfram, það var ótrúlegt að sjá hvað strákurinn var flinkur að stýra græjunni. Áfram héldum við til enn minni þorps sem heitir Lildstrand, þar var athyglisverðast að finna krækiber og þau voru svo stór og góð!!! Það var líka mjög gaman að sjá hvað landslagið er ólíkt þarna því sem ég hafði áður séð af Danmörku. Hólar og hæðir, en miklu grónara en ég hafði ímyndað mér.
Ekki slógum við slöku við á sunnudaginn, þá var haldið til eyjarinnar Mors í Limafirðinum. Þangað fórum við með ferju og það er sú allra stysta sigling sem ég hef farið held hún hafi ekki náð 5 mín. Þar duttum við niður á steina og steingerfingasafn, sáum margra miljarða gamla steina. Síðan fórum við á mjög skemmtilegt safn sem heitir Skarregaard. Það er gamall bær sem er eins og hann var fyrir 1950, þá var komið vatn í þvottahúsið og rafmagn. Þarna voru margir fallegir munir, en mest fannst mér gaman að sjá þvott sem hékk á snúrum, það voru mest bróderuð kvenundirföt, ótrúleg vinna sem lögð hefur verið í það sem enginn eða fáir sáu! Næst lá leiðin til Nyköbing, þar skoðuðum við stórt safn í gömlu klaustri, einhvernvegin vorum við bæði hálf úthaldlítil þar, sennilega búin að fá nóg. Þar var þó eitt mjög skemmtilegt, maður opnaði dyr, fór inn í herbergi sem átti að vera kapella og við fyrstu sýn var eins og fólk sæti á kirkjubekkjunum, en þegar betur var að gáð voru þetta brúður og heldur óhrjálegar að sjá. Síðan héldum við aftur til Lögstör um Skive. Það kom okkur mjög á óvart hversu erfitt reyndist að fá kaffi, þurftum að leita með logandi ljósi í hvert sinn sem okkur langaði í sopa.
Á mánudaginn var mér svo skilað hingað til Skals og Ábbi keyrði til Köben til Ragnheiðar og Jakobs.
Fatasaumur var verkefni vikunnar, grunnsniðagerð og fleira. Á miðvikudagskvöld fengum við að gera smáhluti úr postulíni, ég gerði tölur og perlur og e-ð sem ég veit ekki alveg hvað verður. Næsta miðv. höldum við svo áfram. Í gærkvöldi fórum við til Viborgar á fyrirlestur hjá einum þekktasta prjónahönnuði Dana Marianne Isager, hún sagði mjög vel frá, sýndi myndir frá ferðum sínum til Perú og víðar og hvernig hún tengir saman það sem hún sér og munsturgerð sína. Hún er með heimasíðu sem gaman er að skoða www.isagerstrik.dk.
Veðrið hefur verið svo ótrúlega gott 20-25 stiga hiti svo það var ekki hægt annað en að fara í langan hjólatúr í gær, í dag fór ég til Viborgar, hitti Ö.B og spókaði mig á ermalausum bol og pilsi í blíðunni, þvílík dásemd dag eftir dag. Á morgun er modelteikning fyrir þá sem það vilja og ég ætla að prófa.
Jæja ætli þetta sé ekki bara gott í bili, bestu kveðjur!!!
Um bloggið
Sigga í Skals
Myndaalbúm
Tenglar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæl Sigga, það er virkilega gaman að skoða síðuna þína. Við Óskar fórum um þessar slóðir, sem þið Ásbjörn fórum um, fyrir rúmum 10 árum. Skoðaðir þú sokknu kirkjuna við Skagen? Okkur fannst hún mjög áhugaverð. Bestu kveðjur frá okkur. Ella
Elín Björg Magnúsdóttir 23.9.2006 kl. 21:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.