Miðvikudagur, 20. júní 2007
Afurðaskil
Þá er búið að skila öllum afurðunum á Sýninguna. Kennararnir hafa nú verið í 3 daga að setja upp sýninguna og verða líka að á morgun. Ég setti myndir af fíneríinu inn á bloggið svo að það er hægt að berja það augum bara ekki snerta og strjúka. Það er heldur undarleg tilfinning að vera að pakka niður og reyna að henda ( það er erfitt ) eftir heilan vetur eða næstum heilt ár, síðan 12. ágúst. Það togast á tilhlökkunin að koma heim og eftirsjá eftir draumnum sem er að verða búinn og verður aldrei endurtekinn.
Ásbjörn ætlar að koma með Norrænu á laugardaginn og við ætlum síðan í nokkurra daga ferðalag á Mussonum og heim frá Bergen.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 13. júní 2007
Ferðalög
Ég get nú um stundir aðeins tjáð mig á þessu alþjóðlega svæði, það er að segja tölvupósturinn minn liggur niðri því að nú skal skipt um þjónustuaðila fyrir skólann. Það hefði nú eiginlega mátt vara mann við, veit ekki hvaða netfang ég fæ eða hvenær.
Ég fór í frábær ferðalög síðustu daga. Fyrst á fimmtudaginn, þá sótti Birthe skólasystir frá því fyrir jól okkur Ernu og keyrði með okkur norður yfir Aggersund á Limafirði og að stað sem heitir Vejlerne. Þar er mikið friðland fyrir fugla og búið að útbúa aðstöðu fyrir fuglaskoðara. Þar dró hún upp köflóttan dúk og bauð upp á morgunkaffi og ný rúnnstykki. Síðan keyrðum við áfram og nú til að skoða hæsta fuglabjarg í Danmörku Bulbjerg, sem hún sýndi okkur stolt. Þar voru alls konar mávar en eins og þeir sem þekkja mig vita þekki ég afar fá flugdýr með nafni, hafði samt gaman af. Þarna voru líka grafin inn í bergið risastór birgi sem Þjóðverjar byggðu á stríðsárunum til þess að vakta hafið. Næsti áfangastaður voru Svinkløverne, staður þar sem er mjög fallegt útsýni yfir sjóinn. Þetta var skemmtileg leið hún þekkir svæðið vel og keyrði ekki alfaraleið. Á Svinkløverne var síðan áð um stund og snæddur hádegisverður með köflótta dúknum og köldum bjór ásamt öðrum veitingum. Við skoðuðum líka lítið fiskiþorp þar sem bátarnir eru dregnir á land með spili, engin bryggja. Næst keyrði hún með okkur til Løkken þar er flott strönd og við fórum auðvitað í sjóinn, nokkuð kalt en ströndin hvít og falleg. Áfram var haldið til Lønstrup þar er viti umlukinn sandi sem fýkur fram og til baka, Birthe sagði okkur að sandurinn hefði verið allt öðru vísi síðast þegar hún kom. Þetta er eins og sandfjall sem færist úr einum stað í annan. Bærinn er líka mjög fallegur gæti vel hugsað mér að fara þangað aftur. Við Mårup kirkju fengum við síðdegiskaffi, nokkuð seint dagskráin hafði aðeins færst til, frúin dró fram prímus og lagaði kaffi og dró fram heimabakaða köku. Kirkjan sú er komin nokkuð nálægt bakkanum og þó nokkuð af kirkjugarðinum er horfinn í hafið. Síðan keyrðum við heim til þeirra hjóna og Mogens beið með fína máltíð úti í garði, það gleymdist að segja að veðrið var alveg frábært 27 stiga hiti og sól. Svo var okkur skilað heim undir miðnætti.
Á föstudeginum fór ég af stað í bítið til fundar við samstarfsfólk mitt í Borgarhólsskóla, þau voru að skoða skóla í Kaupmannahöfn. Það urðu fagnaðarfundir og margt skrafað. Fyrstu nóttina var ég rétt að festa blund með eyrnatappa og auðvitað sjónlítil, þegar ég verð vör við birtu í herberginu og mannamál. Ég reif tappana úr eyrunum og setti upp gleraugun og togaði í sængina ( síðasta sem ég hugsaði áður en ég gleymdi mér var að það væri líklega í lagi að liggja ber þar sem ég væri ein í herbergi, það var óbærilegur hiti). Sá sem stóð á gólfinu hjá mér spurði á ensku hvernig ég hefði komist inn í herbergið og afhverju ég hefði ekki tékkað út. Ég reyndi að svara einhverju en spurði hvort ég mætti ekki klæða mig og ræða svo við hann. Fór svo klædd niður í lobbí og spurði á dönsku hver hefði komið í herbergið mitt. Ég gat svo sannað að ég hafði tékkað inn þá um daginn en þau voru fjögur að yfirheyra glæpamanninn. Þetta var svo auðvitað tölvan sem ekki stóð sig vores coputer, ég bað um vinsamlega að fá ekki fleiri heimsóknir þessa nótt. Verð að viðurkenna að þetta var heldur óþægileg upplifun. Á laugardeginum fórum við í rútuferð með Guðlaugi Ara mjög skemmtilegt og um kvöldið í siglingu út í Flakfortet. Flakfortet er gamalt virki en var aldrei notað í stríði, þar borðuðum við og síðan í land á smá pöbbarölt. Sunnudagurinn jafn sólríkur og heitur, kringum 30 stigin, var upplagður í siglingu um sundin og síðan í Kongens have og Rosenborgarhöll. Skoðuðum dýrgripina þar og meðal þeirra voru sérstakar silfuröskjur til að geyma naflastrengi litlu prinsanna og prinsessanna. Menn höfðu þá trú að slíkt gæti forðað frá sjúkdómum og óáran. Skoðuðum líka Botaniskhave en það var orðið óbærilega heitt svo það verður gert betur síðar. Hélt heimleiðis á mánudag í sama hita sem varð til þess að lestirnar máttu ekki keyra hraðar en á 80 svo að það voru seinkanir og aflýsingar.
Nú erum við á endasprettinum hér í Skals svo að allir eru á bólakafi að klára og ganga frá. Ofni dúkurinn og blómadúkurinn eru straujaðir og fínir. Allt mun þetta hafast!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 5. júní 2007
Frídagur
Enn einn frídagurinn er runninn upp, nú er það Grundlovsdag. Mér skilst að meira sé um frí nú en venjulega á þessum degi. Ég held að Danir slái okkur við í frídögum a.m.k. á vorin og reyndar benti ein á að þetta væri síðasti frídagur til jóla. Þeir hafa auðvitað uppstigningardag, annan í hvítasunnu og 1.maí eins og við. Stóri bænadagurinn er fyrsti föstudagur í maí og svo Grundlovsdag. Þegar að danir skiptu yfir í lútherskuna fannst þáverandi kongi alveg ómögulegt að hafa ekki sér bænadag, þeir höfðu áður farið til bæna bæði á miðvikudögum og föstudögum fyrir utan sunnudagana (upplýsingar frá Henning litteratúr kennara). Kongurinn vildi að þessi dagur yrði að vorinu svo að hann gæti farið í veiðihúsið sitt, notað helgina, ég hef alltaf haldið að kongar gætu dálítið ráðið tíma sínum! Þannig að Stóri bænadagurinn er gamalt skikk.
Hér var yndislegt veður um helgina, ég hjólaði til Viborgar, hafði áður boðið sjálfri mér í mat og gistingu hjá Önnu B. Hún eldaði logandi fínan chilirétt, svo var auðvitað saumað út um kvöldið. Hjóluðum svo saman í Bilka hinum megin í bænum á sunnudaginn og ég svo áfram hingað upp eftir. Ekki má gleyma að áður en ég fór til Viborgar kláraði ég blómadúkinn og saumaði fangamarkið mitt með gotneskum stöfum til að setja á öskjulok.
Ætla að nota daginn í dag til að klára öskjuna og halda áfram að sauma út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 1. júní 2007
Stúdent
Á fimmtudaginn fyrir hvítasunnu lagði ég af stað um hádegi til Íslands, tilefnið útskrift. Ég tók strætó, rútu og lest frá Vejle. Þegar ég ætlaði að setjast í sætið mitt sá ég að sessunautur minn var með ól um handlegginn og spurði: Ertu með hund? Nei en hún var með kött og það kafloðinn það sá ég þegar ég var komin á áfangastað því að fötin mín voru öll í hárum. Ég var sem sagt lánsöm að vera ekki með kattaofnæmi því að kötturinn lá undir sætinu mínu alla leiðina til Kaupmannahafnar. Á aðalbrautarstöðinni stoppaði lestin og flestir fóru út en lestin var stopp í nokkrar mínútur. Eldri maður stóð upp og teigði úr sér, kom svo til mín og spurði hvort ég væri að fara út á Kastrup. Síðan sagði hann mér að hann væri frá Brasilíu og á leið þangað. Hann var rétt búinn að bjóða mér með sér til Brasilíu þegar maður hleypur fram hjá, grípur tösku mannsins, út úr lestinni og upp tröppur sem þar eru. Sá gamli var fljótur að átta sig, rauk út á eftir þjófnum og orgaði á eftir honum passport og tikket. Þjófurinn yðraðist sem betur fór og kastaði töskunni niður stigann. Í skjóðunni var vegabréfið, farseðlarnir og allir peningarnir. Þegar við kvöddumst við Kastrup hafði hann komið verðmætunum fyrir í brjóstvasanu og marg sýnt mér.
Elín útskrifaðist frá Menntaskólanum við Hamrahlíð á laugardaginn, athöfnin var fín, tónlist og ræður og auðvitað einkunnaafhending. Stúdentarnir voru 164 svo að allt tók þetta sinn tíma. Á eftir héldum við kaffiboð fyrir nánasta skyldfólkið okkar heima hjá Nínu og Venna. Við áttum góðan dag saman og nýstúdentinn ljómaði í gulljakkanum og gullskónum sínum.
Á sunnudaginn fór öll stórfjölskyldan út á Hrafnistu til að pútta með afa og síðan bauð hann í kaffi og köku aldeilis myndarlegt kaffiboð það. Um kvöldið fórum við út að borða á Sjávarkjallarann, fengum marga mjög framandi rétti og flesta mjög góða. Þjónustan var frábær en aumingja þjónninn lenti í að hvolfa bakka með mörgum glösum yfir okkur Ásbjörn, er með reynslu af slíku frá Tékklandi.
Af stað aftur á mánudagsmorgun, allt eins og venjulega nema það var þriggja kortera seinkun áður en vélin lagði af stað og flugstjórinn sendi aðstoðarmann sinn út að athuga með hurð sem hann taldi að væri ekki lokuð og grínaðist svo með að hann þyrði örugglega ekki aftur inní vélina. Ég náði samt lestinni minnni á Kastrup og var einn ferðafélaginn hundur, svo það má búast við ýmsu!!
Þriðjudagur var helgaður útsaum, sídegis og langt fram á nótt voru þrumur og eldingar þannig að ljósin nötruðu í loftinu og hellirigning fylgdi.
Við íslendingarnir fórum með strætó um hádegið til Farsø og þangað sótti Björk útsaumskennari okkur. Hún keyrði með okkur alla leið að Vesterhavet og á stað sem heitir Svinkløv Badehotel, þar fengum við okkur kaffi og horfðum út á hafið æðislegur staður. Síðan keyrði hún með okkur heim til sín í Løgstør, sýndi okkur bæinn og trakteraði með fínum mat
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 23. maí 2007
Morgunstund gefur gull í mund
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 22. maí 2007
Japönsk teserimónía
Fallegt veður í dag, "brotið skýjafar" eins og ég heyrði flugmann einu sinni lýsa veðri, laglegt það!
Kláraði að laga villur og falda dúkinn góða svo að nú er bara eftir að stenka og strauja eftir kúnstarinnar reglum, sólarhringsferli. Gærdagurinn var helgaður öskjum, það er eitt af því sem gaman er að kynnast en þarf ekki að gera aftur.
Eftir skóla buðu japönsku stelpurnar til tedrykkju að þeirra sið. Þær voru búnar að klæða sig uppá í kímonóa og raða á gólfið því sem við á. Þær sýndu okkur hvernig athöfnin fer fram og útskýðu hvernig þurrkað er af skálinni eftir settum reglum, hvernig meðlætið var fyrst borið fram og hvernig teið skal reitt fram. Framhlið skálarinnar, sú skreyttari snýr að gestinum þegar gestgjafinn afhendir hana og gesturinn snýr skálinni aftur þannig að skrautið snúi að gestgjafanum, allt til að sýna virðingu. Svo fengum við að smakka bæði te og meðlæti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 20. maí 2007
Vefa mjúka, dýra dúka!
Hér hefur allt verið vægast sagt með kyrrum kjörum um helgina, höfum verið hér 4 útlendingar, frá sitt hvoru heimshorninu. Fallegur dagur í dag léttskýjað og 18 stiga hiti. Brá mér í hjólatúr ætlaði bara stutt en svo er bara ótrúlega gaman að hjóla um nærsveitirnar. Nú er mælirinn loksins kominn á hjólið svo að ýmsar staðreyndir eru nú ljósar t.d. meðalhraði fyrri hluta leiðarinnar 20 km á klst en til baka aðeins 17,3 (mótvindur).. Mesti hraði 51 km á klst (augnablik niður brekku) svo er tíminn og sitt hvað fleira, auðvitað allt annað að vita hvað maður er að gera!! Sat svo úti í garði og húllfaldaði nýja dúkinn, maður verður að eiga dúka til skiptanna. Þessi á að fá svartsaumsbróderí ( ætla að hafa það í gyltum tón ekki svart ).
Á fimmtudaginn var uppstigningardagur og auðvitað frí en Danir eru sniðugir þeir gefa líka frí í öllum skólum á föstudeginum og mér skilst að margir taki sér frí í vinnu. Á föstudaginn var DSB døgnet, járnbrautarsólarhringurinn. Hægt var að ferðast um allt Jótland fyrir 49 kr alla Danmörku fyrir 99 kr og ef fara átti til Bornholm 149 kr. Þetta var auðvitað gráupplagt fyrir okkur Önnu Birnu og Axel ( ókeypis fyrir börn). Við ákváðum að fara til Ribe, lögðum af stað upp úr kl 8 áleiðis til Skive, Struer og svo suður til Esbjerg og Ribe. Þar áttum við frábæran dag, bærinn fullur af fólki því að það var túlípanadagur, við skildum ekki alveg út á hvað það gekk því að við sáum enga túlípana nema úr pappír. Við fórum á mjög skemmtilegt víkingasafn og síðan í dómkirkjuna og auðvitað alla leið upp í turn. Þaðan sást um allar sveitir og hvað bærinn er lítill. Kirkjan sjálf er mjög sérstök, eldgömul að uppruna en hefur verið endurbætt upp úr 1980 með t.d. mjög framúrstefnulegri altaristöflu, okkur listfræðingunum fannst ekki nógu gott samræmi í endurbótunum. Það kom að því að halda heim, höfðum það gott til Fredrecia. Þar kom hins vegar berlega í ljós að fleirum en okkur hafði þótt snjallt að nýta sér tilboð dönsku járnbrautanna. Við máttum gjöra svo vel að standa uppá endann mestan hluta leiðarinnar til Langå og það hefði í sjálfu sér verið í lagi ef ekki hefðu tugir annara staðið líka. Maður hékk í einhverju sem náðist tak á og nánast hvíldi í fangi næsta manns og eins og vænta mátti var orðið heldur lítið súrefni og nokkuð heitt. Allt gekk þó upp fyrir rest og við komum til Viborgar um 11:30, náðum sem sagt 8 tíma lestarferð fyrir 49 kr !!!!
Ekki má gleyma að segja frá því að á fimmtudaginn tókst mér að klára að vefa dúkinn góða, það var afar góð tilfinning eftir óteljandi vinnustundir og satt að segja hélt ég á tímabili að ég yrði að fá að hafa stólinn með mér heim. Ég fæ svo hjálp í vikunni við að laga villur og ganga frá gripnum, þarf auðvita ekki að taka fram að hann verður flottur kominn á borðið heima í Laugarbrekku!!!
Bestu kveðjur úr dúkalandi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 9. maí 2007
Berlín
Þegar mikið er að gera verður að forgangsraða og nú er komið að bloggi. Í morgun var ég með fyrirlestur (kannski nokkuð stórt orð) um útsaumsspor og þjóðbúninga okkar Íslendinga. Fékk hjálp heima í páskafríinu við að skanna myndir á disk og í morgunstund í morgun sýndi ég þær og sagði frá auðvitað á dönsku. Gekk bara vel amk fékk ég klapp á bakið og þetta er sem sé ástæðan fyrir því að ég hef enn ekki gert grein fyrir Berlínarferðinni góðu.
Mánudagsmorguninn 30.4. lögðum við af stað kl 7 og keyrðum suður eftir Jótlandi, auðvitað var áð á bensínstöð einhversstaðar við hraðbraut í Þýskalandi og nestið dregið upp. Það var síðan stoppað á mjög skemmtilegu útsaumssafni í bænum Celle þar sem amerísk kona, mjög áköf sýndi okkur og sagði frá öllu mögulegu. Hún gat meira að segja komið skoðun sinni á Bandaríkjaforseta á framfæri, ég ætla ekki að hafa hana eftir. Komum alla leið til Berlínar um 8 leitið eftir nokkur nestis stopp á bensínstöðvum, fórum í stutta kvöldgöngu um Kurfurstendam.
Þri. 1. maí vorum við komnar í biðröð fyrir utan þinghúsið milli 8 og 9. Það kom að því að við kæmumst inn og þá tók við ýtarleg vopnaleit bara eins og á flugvöllum. Við fórum svo alla leið upp í kúpulinn, byggingin er mjög nútímaleg og frábært útsýni þegar upp var komið. Síðan gengum við að Brandenburgarhliðinu og minnislistaveki um Gyðinga. Það er magnað, 2500 minnir mig, steyptir stöplar mis stórir og háir og undirlagið er mishæðótt. Síðan keyrðum við að Gyðingasafninu og skoðuðum. Byggingin var mikilfengleg og listaverk í byggingunni líka, en safnið olli mér vonbrigðum, það var allt og mikill lestur og ekki fyrr en allra síðast að eitthvað vakti áhuga minn, það skal tekið fram að ég hef lengi haft áhuga á málefninu og varð því kannski svektari fyrir vikið. Eftir matinn skoðuðum við hins vegar mjög skemmtilegt safn sem heitir The story of Berlin og er á Kurfurstendam. Það er ákaflega lifandi safn, eitt herbergið er t.d. vélsmiðja og það er mjög heitt, annars staðar er gólfið þakið bókum eins og parket til að minnast bókabrennunnar. Um kvöldið fórum við í leikhús og sáum söngleikinn Tanz der Vampire einhvers konar Drakúla saga. Það var frábær upplifun að sjá og heyra leikið á þýsku og sýningin mjög skemmtileg.
Mið. 2. maí fórum við í sameiginlega sendiráðsbyggingu Norðurlandanna þá vildi svo skemmtilega til að þar var íslensk list og hönnunarsýning og meðal skráðra þátttakenda var Guðrún Lilja. Það var hins vegar galli á þeirri sýningu að gripirnir voru ekki merktir eigendum sínum, gaman samt. Síðan skoðuðum við Bauhaus safnið, mér fannst mest gaman að skoða hlutina, bæði húsgögn og nytjahluti. Þá var keyrt með okkur til að skoða Hackescher Markt, það eru margir bakgarðar, húsin eru byggð í ferhyrning en inn á milli þeirra eru endalausir bakgarðar og gengt á milli. Þarna eru verslanir og veitingahús þannig að íbúarnir þurfa varla að fara neitt annað, svæðið var áður í Gyðingahluta borgarinnar. Við skoðuðum líka verslun þar sem ungir hönnuðir koma vöru sinni á framfæri. Síðan var hleypt í búðirnar við Ku´dam en við Erna skoðuðum Gedachniskirche Kirkju sem var sundurskotin í stríðinu og síðan byggð ný við hliðina.
Fimm. 3. 5. Skólasysturnar fóru heimleiðis en við Erna urðum eftir. Við byrjuðum á að fara í skoðunarferð um borgina og fórum fyrst úr rútunni við Dómkirkjuna, skoðuðum hana hátt og lágt, þ.e. frá kjallara með óteljandi steinkistum og alla leið upp í kúpul þar sem hægt var að ganga hringinn og njóta útsýnis. Útsýnið var frábært og ekki skemmdi að það var sól og blíða. Næst fórum við á myndlistasýningu með myndum eftir Salvador Dali og síðan í Nicolaihverfið sem á víst að vera eins og Berlín var í gamla daga, búið að gera mörg húsanna upp. Tókum svo aftur rútuna til Charlottenburg og skoðuðum hluta af höllinni, það er alltaf gaman að skoða hallir! Þegar við nálguðumst heimaslóðir fundum við göngugötu með búðum fyrir venjulegar buddur og var heldur létt.
Föst. 4.5. Keyptum okkur dagsmiða í s og u bahn á 6,30 evrur og héldum til Potsdam. Þar skoðuðum við Sans Souci höllina og myndagalleri Friðriks 2 kongs á 18. öld. Þar var hvert listaverkið eftir annað og ekki er garðurinn síðri. Tókum strætó og duttum niður á miðbæinn í Potsdam, lágreistur og fallegur bær.
Laug. 5.5. Fórum aðeins í búðir og svo í góðan göngutúr, römbuðum inní kirkjugarð með afar sérkennilegum grafsteinum eiginlega hálfgerð hof, afskaplega tilkomumikið. Það má ekki gleyma að segja frá því að sólin skein á okkur allan tímann og hitinn var milli 20 og 25 stig svo að síðbuxur voru óþarfar.
Sunn 6.5. Vöknuðum kl 5:30 og af stað á brautarstöðina. Fyrir rælni spurði ég konu í upplýsingaklefa hvort blaðið sem ég var svo stollt af væri ekki fínn farmiði. Enn nei hún sagði að farmiðinn ætti að líta öðruvísi út og ég skyldi tala við farmiðasöluna. Þar hitti ég fyrir þreytta konu sem sagði mér að þau væru ekki með prentara þannig að þar gæti ég ekki klárað að prenta miðann ég skyldi reyna á Burger King. Það fór nú aðeins um mig átti ég að þurfa að kauða nýja miða, ég sem var svo ánægð með mig. Í næstu bókabúð voru 2 ungir og almennilegir menn sem ég bað um hjálp og var það auðsótt mál. Nýr miði var prentaður út, það er nú meiri frumskógurinn þessi miðaverslun á netinu!! Við komumst af stað til Hamborgar, Árósa og heim. Þetta var í alla staði frábær ferð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 28. apríl 2007
Vorblíða
Ég held að það að reyna að setja myndir inn á þetta blogg sé sérstök þolinmæði þjálfun. Ég ætlaði að setja inn myndir af vorinu hér í Danmörku og er búin sð bíða í þrjú korter meðan vinnsla fór fram þegar ég loggast bara út ( góð ísl ). Vonandi er kerfið ekki allt svona lélegt heldur tenging skólans, hvað með það reyni aftur síðar.
Þar sem framundan er Berlinar ferð, studietur, ákváðum við Erna að framlengja dvölina þar. Við förum af stað í rútu á mánudaginn og þær koma til baka á fimmtudaginn, en við ætlum að vera til sunnudags. Ég er búin að fá fyrir okkur gistingu áfram á hótelinu svo að við þurfum ekki að flytja. Ég bauðst til að finna fyrir okkur lestarmiða á netinu þóttist fullfær um það eftir að hafa keypt miða til Kaupmannahafnar á netinu. Á föstudaginn fann ég fyrir okkur ódýra ferð og var heldur ánægð með mig, en því miður ég gat ekki prentað miðana út, þeir koma nefnilega ekki sem viðhengi eins og hjá dönsku járnbrautunum. Ég leitað um allt á þýsku járnbrautarsíðunum og sendi hjálparbeiðnir um allt kerfið með tölvupósti. Skemmst frá því að segja að ég var næstum búin að sætta mig við að peningarnir mínir væru tapaðir. Alla helgina var ég að ergja mig á þessu og á mánudaginn las ég einu sinni enn tölvupóstinn sem ég fékk án viðhengis. Þar var þá boðið upp á símaþjónustu, svo að ég ákvað að hringja bara til Þýskalands. Ég gerði það og fékk samband við elskulega þýska símadömu sem leiddi mig í gegn um frumskóginn og miðana prentaði ég út!!! Þarf ekki að taka fram að samtalið fór fram á þýsku sem varla hefur verið notuð í 30 ár svo mín var nokkuð ánægð með sig - aldrei að gefast upp!!!
Um síðustu helgi var mér boðið í gistingu á H.C. Andersens veg með prjónadót. Við Anna fórum þó fyrst í frábæran göngutúr rúma tvo tíma í kringum vötnin í Viborg ótrúlega falleg leið. Þeir eru víst ekki alveg blankir sem eiga hús við vatnsborðið, glæsilegir bílar og bátar í stæðum segja sína sögu. Við prjónuðum svo langt fram á kvöld þó að börnunum þætti við úthaldslitlar.
Mánudagurinn var fyrsti dagur í nýju valfagi nú er það öskjugerð hjá mér. Það lofar bara góðu er mikil nákvæmnisvinna og hver millimetri er mikilvægur. Eftir skóla fórum við Erna í gönguferð niður að firði í dásamlegu veðri.
Þriðjudagur var helgaður útsaumi hjá Björk og ég hélt áfram með dúkinn minn, fórum í bæinn og borðuðum á veitingastað dekurdúfurnar!
Mið, fimm og föstudagur voru útsaumsdagar hjá Lone. Ég ákvað að tími væri kominn til að borðið mitt sem ég smíðaði í Flensborg í menntaskóla, fengi útsauminn sem það átti að fá í upphafi. Ég ákvað að þrykkja og sauma, byrjaði að teikna skapalónin og merkja miðju á efninu og svo fór allur fimmtudagurinn í að þrykkja. Þrykkti í þrennu lagi, fyrst blöðin, síðan dökku blómblöðin og að síðustu þau ljósu. Í gær gat ég svo byrjað að sauma. Aðal umræðan hefur verið sú hvað hver og ein ætlar að taka með sér í rútuna til að vinna, mér sýnist ég gæti kannski saumað, en tek líka prjónadót til öryggis. Skilst að það sé afar vont og leiðinlegt að vera aðgerðalaus í svona autobana rútuferð!
Fór á fimmtudaginn í hjólatúr til Hjarbæk, lítinn sætan bæ í 8 km fjarlægð og hina dagana hefur verið gengið. Allan föstudaginn sátum við úti og saumuðum út, vikan hefur verið í einu orði dásamleg, sól og blíða og 20 og eitthvað stiga hiti og eiginlega engin föt nógu köld og það er bara apríl. Það er líka alveg frábært að fylgjast með náttúrunni, trén blómstra hver tegundin eftir aðra og á hverjum degi eitthvað nýtt að sjá. Bestu kveðjur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 19. apríl 2007
Gleðilegt sumar
Sumardagurinn fyrsti í dag og í tilefni dagsins hefur verið rok og rigning, held reyndar að hann sé að rífa af sér en það er enn bálhvasst. Ég hef alltaf haldið uppá sumardaginn fyrsta, skemmtilegur íslenskur siður sem við ættum að halda í. Hef verið að velta fyrir mér í dag hvort siðurinn er alveg sér íslenskur eða hvort menn hafi líka fagnað sumri á hinum Norðurlöndunum. Ég sagði frá þessari venju í morgunandaktinni og gat ekki heyrt að neinn kannaðist við hana.
Ég hef setið við og saumað út í dúkinn minn í dag. Afraksturinn er eitt blað á blómi, kæmi ekki á óvart að í því væru nokkur þúsund spor, en mikið er þetta gaman! Ég kláraði jakkann minn í gær svo að á morgun ætla ég að byrja á nokkurskonar flíspeysu nema hún er úr ull. Svo er auðvitað vefurinn, mér telst til að ég hafi ofið rúman metra af þessum 327 cm
Sumarkveðjur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Sigga í Skals
Myndaalbúm
Tenglar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar