Sunnudagur, 15. apríl 2007
Meiri blíða
Árrisul sem endranær, var komin út i blíðuna kl 9. Fór í göngu niður að firðinum, en áður hafði ég sett rúmfötin í þvottavél. Það var auðvitað ekki hægt annað en að hengja út. Ég komst í gang aftur með vefinn, þurfti að taka mig taki. Tolldi í einn og hálfan tíma þá langaði mig aftur út. Fór í langan hjólatúr og uppgötvaðði allt í einu hvað það þíðir að vera utanskóla, það er auðvitað þegar maður getur ekki verið inni í skólanum vegna blíðviðris. Skúraði allt herbergið mitt og sjænaði og síðan hef ég verið að sauma viskastykki, já látið ekki líða yfir ykkur. Uppþvotturinn verður skemmtilegur í félagskap hænsnanna sem prýða diskaþurkuna ( íslenska ). Á morgun er fatasaumur og ég ætla að byrja á jakka með sjalkraga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 14. apríl 2007
Blíðviðri
Ég er ekki hissa á að fólk vilji vera hér í Danaveldi ef framhaldið verður eins og forsmekkurinn af sumrinu. Skemmst frá því að segja að búið er að draga fram dásamlegu Ecco sandalana og stuttbuxurnar og rífa sig úr sokkunum. Í gær var a.m.k. 20 stiga hiti og sól og svipað í dag. Hér í Skals var fyrsti útimarkaður ársins í dag, auðvitað frábært að sitja úti með frankfurter pylsu og bjór í sólinni. Síðan sat ég úti og bróderaði ég veit ekki hvað hægt er að hafa það betra.
Við íslensku skólastúlkurnar komum hingað á miðvikudaginn eftir 14 tíma ferðalag, allt gekk vel en heldur var maður búin að fá nóg. Á fimmtudagsmorgun fór ég með dönsku vinkonu minni og 3 öðrum í fínan túr til Århus. Fyrst fórum við auðvitað í efnabúð, risastóra en ég hamdi mig eins og gat. Síðan fórum við í bæinn og skoðuðum m.a. dómkirkjuna. Mér fannst ekki leiðinlegt að komast uppí turnin, bara 150 tröppur, þaðan er heilmikið útsýni í allar áttir. Næst héldum við í útsaumsbúð og garnverslanir ásamt ýmsum öðrum. Á leiðinni til baka keyrði Birthe á eina af baðströndunum við bæinn, þar var fólk þegar búið að koma sér fyrir á teppum, mér fannst nú heldur kalt til sól og sjóbaða. Síðan bauð hún okkur heim í dýrindis máltíð eins og vant er.
Í gær var ég í útsaum hjá Lone hún var að sýna aðferðir við tauþrykk og ég ákvað að sauma eitt viskastykki með hænum. Þrykkti hænuskrokkanana og sauma svo það sem eftir er.
Ég ætlaði að vera ægilega dugleg við vefnaðinn um helgina en ég veitti sjálfri mér undanþágu vegna veðurs, en það má velta fyrir sér hvenær blessaður dúkurinn klárast ef veðrið verður svona gott í vor!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 29. mars 2007
Áleiðis heim
Allt fínt að frétta héðan sólin hefur skinið alla vikuna og hitinn verið uppí 15 gráður. Ég er ekki hissa að fólk vilji búa hérna. Hef verið í fatasaum þessa viku, kláraði 2 blússur, byrjaði á annarri í haust þegar enn var hlýtt. Er svo með áætlanir um léttan jakka og peysu fyrir næsta haust. Í dag var endurtekið efni þ.e. listasaga alveg sú sama og í haust, ég hafði því frjálsar hendur og sat við útsaum.
Á morgun fer ég svo af stað til Kaupmannahafnar og heim á sunnudag. Það er alltaf gaman að koma til Köben og við Ragnheiður ætlum til Dragör og skoða gömlu húsin þar. Svo verður bara yndislegt að koma heim á Skerið í páskafrí.
Hlakka til að sjá ykkur bestu kveðjur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 26. mars 2007
13 gráður í plús
Var að koma úr snilldar hjólatúr, búin að hjóla 20 km. Hjólaði alla leið til Møldrup var býsna ánægð með mig, en þegar ég nálgaðist bæinn blasti við mér ótrúleg sjón, allur bærinn var fánum prýddur!! Ég vissi að það er afrek að hjóla 10 km en að þeir tækju á móti manni sem sigurvegara í þessum góða bæ það vissi ég ekki. Ég hjólaði auðvitað einn hring um bæinn eins og aðrir sigurvegarar. Á bakaleiðinni reif ég mig auðvitað úr öllu sem hægt var alveg að siðgæðismörkum og hjólaði með sundurglennta fingur og andlitið uppí sólina. Dáááááásamlegt!!!!!
Sidste søndag i marts skal havemøblerne stilles frem og klokken også. Sem sagt klukkunni var flýtt um klukkutíma aðfaranótt sunnudagsins svo að nú munar 2 tímum á Danmörku og Íslandi.
Nú er húsið fullt af konum, hér er vikukúrs í útsaum og svo eru mánudagskonurnar í dag og miðvikudagskonurnar koma á réttum degi. Þetta hefur þann kost að betra er í matinn og það er gott. Okkur samlöndunum er farið að leiðast afgangarnir og hlökkum allar til að koma heim um páskana og borða góðan mat.
Ég ætla að reyna einu sinni enn að setja inn fleiri myndir, þetta blessaða forrit er svo lengi að hlaða myndunum inn að það lokar á sig sjálft. Þannig er ég í tvígang búin að sitja yfir þessu í klukkutíma þegar allt í einu kemur þú verður að vera innskráður til að geta unnið á síðunni!!! Frekar pirrandi verð ég að segja.
Horfði á Spaugstofuna á laugardagskvöldið í beinni 300. þátt. Velti því fyrir mér hvort ég hafi ekki bara séð þá alla, nema hvað mér fannst þeir spaugstofumenn óvenju beittir. Það var mjög áhrifaríkt að heyra þjóðsönginn sunginn með þessum nýja texta og fróðlegt að vita hvað þjóðinni finnst um uppátækið.
Gleymdi að segja að ég kom við til að taka veðrið á eina hitamælinum sem ég hef fundið og það eru 13 gráður í plús!!!!!!
Bestu kveðjur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 21. mars 2007
Strengir
Helst mætti halda að ég væri að koma úr erfiðri fjallgöngu slíkir eru strengirnir í skrokknum eftir að vefa. Það reynir á allan líkaman að vefa og það kom mér á óvart. Þar sem vefurinn er eins breiður og stóllinn leyfir krefst vefnaðurinn mikilla hliðarsveiflna. Ég sé fyrir mér örmjótt mitti og stinnan afturenda þegar þessum 328 cm verður náð. Vefurinn er á 10 sköftum og munstrið er ofið á 5 og millibilið á hinum 5. Til þess að skilin séu góð þarf að stíga þétt, nota vogaraflið.
Ég hef auðvitað nægan tíma til að hugsa á meðan á þessu öllu gengur þó að ég verði alltaf að telja upp á fimm og það átta sinnum til að halda munstrinu. Það rifjaðist upp fyrir mér að ég gaf yfirlýsingar um það áður en ég fór af stað hingað í sumar að ég ætlaði nú alls ekki að tapa mér í vinnu, heldur njóta lífsins, skoða nýja staði og gera skemmtilega hluti fyrir utan skólann. Þegar ég kom útkeyrð heim í jólafrí endurnýjaði ég loforðið og taldi að með meiri reynslu ætti ég að geta afmarkað vinnuna betur. Nú er hins vegar svo komið að ég hef áttað mig á að svona verður tíminn hér, þetta er bara svo ótrúlega gaman og mig langar að gera svo margt á stuttum tíma. Þannig að voltaren krem og ibufen er málið!!
'A mánudaginn í morgunstund var kynning á dönskum sið sem snýst um að senda gækkebreve. Þau eru þannig að sendandinn klippir út fallegt bréf, svipað og við klippum dúka eða snjókorn. Skrifar síðan undir rós hver hann er án þess að nefna nafn sitt, getur verið í vísuformi eða gátu. Viðtakandinn á að finna út hver sendandinn er og ef honum tekst það fær hann páskaegg, ef ekki skuldar hann sendandanum egg. Eitt dæmi:
Mit navn ved jeg ikke, for præsten han fik hikke, og så hørte jeg det ikke.
Í morgunstundinni í morgun blésum við úr eggjum og máluðum þau. Það hafði ég aldrei gert en tókst það stórslysalaust. Síðan voru eggin hengd á grein til skrauts.
Það hefði einhverntíma þótt flott að fá nafnið sitt í dönsku blöðin og hvað þá verk, Elín mín sjáðu bara!!
Fór í dönskutíma í gær, kennarinn var að æfa eina sem ætlar að taka 10. bekkjar próf í vor. Hún bauð mér að taka prófið líka sem ég auðvitað þáði. Fyrst var upplestur og síðan málfræðiverkefni, leiðréttingarverkefni og greinamerkjaverkefni. Ég leysti þetta á mettíma, leið eins og nemendunum sem finnst þeir hafa getað allt rétt. Það var nú reyndar ekki alveg þannig en kennarinn var afskaplega ánægð með mig því ég var fyrir ofan meðallag danskra unglinga með 8 af 12 í einkunn. Bara stolt!!!
Þá held ég að ég láti lofræðunni um sjálfamig lokið og kveð að sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 17. mars 2007
Hendes Verden nr 12
Hendes verden nr 12 er komið út með greinarkorni um monogrammer, þ.e. fangamörk. Þar er mynd af mínu verki frá í haust og ég nafngreind en auðvitað hefði verið sanngjarnt að taka svolítið viðtal við mann um hugmyndavinnuna, en það kemur kannski næst. Það er nú samt dálítið gaman að þessu.
Ég er loksins byrjuð að vefa, það er með ólíkindum hvað undirbúningsvinnan er flókin og erfið. Nú eru loksins allir þræðir á sínum stað og komnir 12 cm af þessum 328 cm sem stefnt er að!! Það er heilmikil líkamsrækt að vefa svona breiðan dúk, held næstum að allir vöðvar í líkamanum séu að störfum.
Á þriðjudaginn fór til Viborgar með henni Mariönnu saumakennara til fundar við unglingastigið í Friskolen. Þau ætla nefnilega að fara í skólaferðalag til Íslands í haust. Ég gerði heiðarlega tilraun til að sýna mynd um Ísland en það voru engar gardínur svo að þetta voru bara skuggamyndir sem sagt bara mislukkað. Þetta er glænýr skóli með skjávarpa í hverri stofu en gardínurnar gleymdust. Þau áttu heldur ekki almennilegt kort af Íslandi svo ekki var hægt að hafa gagn af því. Ég kom sjálfri mér á óvart sá að ég hef engu gleymt og meira að segja á dönsku!!! Ég spjallaði við krakkana og svaraði spurningum, spjallaði um tengsl þjóðanna, tungumálið og fleira, var áður en ég vissi komin með krít í hönd og farin að kenna íslenska stafi. Þetta var bara gaman þó að myndasýningin hafi verið glötuð.
Við áttum að vera í farvelære síðustu tvo daga en á fyrsta klukkutímanum kom í ljós að námsefnið var nákvæmlega það sama og í haust svo ég ákvað að berjast frekar við vefinn og gerði það. Hinar námsmeyjarnar frá í haust voru líka frekar fúlar yfir þessu og entust mislengi, gufuðu misfljótt upp!! Þetta er nokkuð sem skólastýrurnar þurfa að ath betur í framtíðinni
Hér hefur verið bálhvasst í nótt og dag og er víst spáð slyddu svo ekki var vorið alveg komið! Í kvöld er Matador og svo Barnaby á Dr 1 fastir liðir eins og venjulega. Bestu kveðjur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 12. mars 2007
Vorvindar
Þegar vorsólin leikur um vanga á mér, sungum við skátarnir í Hraunbúum ég man ekki hvort það voru Tyrkja-Guddurnar eða Apaplánetan það skiptir heldur ekki öllu máli. Þetta lag söng í höfðinu á mér í dag þegar við Ólöf skólasystir hjóluðum hér um nærsveitir í sól og 13 stiga hita. Vorvindar glaðir glettnir og hraðir átti líka vel við, ég held næstum að hér sé alltaf vindur, hafgola er milt orð yfir blásturinn í dag.
Frá kl 9-3 sat ég við vefinn og dró í haföld og svo aftur frá kl6-9. Ágætt dagsverk það, nú á ég bara lítið eftir klára vonandi fyrir kaffi í fyrramálið.
Á morgun ætla ég að fara með henni Mariönnu saumakennara inn í Viborg og heimsækja þar krakka sem eru á leið í skólaferðalag til Íslands í haust. Ég ætla að sýna þeim mynd frá Íslandi og svara spurningum á eftir það verður fróðlegt að vita hvort ég klára það sæmilega!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 11. mars 2007
Hjólatúrar
Er ekki tæknin frábær, hér sit ég á jóskri grund, á sunnudagskvöldi og hlusta á Orð skulu standa á Rás 1 frá því í gær. Einn af uppáhaldsútvarpsþáttum mínum.
Nú er vorið örugglega að nálgast ef ekki komið hér var 10 stiga hiti í dag, reyndar nokkuð hvasst og næstum jafn gott í gær. Í gær tók ég hjólið út úr skúr og fór í fyrsta hjólatúr vorsins, mér hafði tekist að fá Ólöfu skólasystur mína með mér og það gerði ferðina auðvitað mikið skemmtilegri. Við hjóluðum langleiðina til Möldrup, fyrri hluti leiðarinnar var léttur og skemmtilegur en þegar við snerum við kom í ljós af hverju . Við höfðum nefnilega haft vindinn í bakið og nú þurftum við að berjast á móti honum til baka. Okkur tókst það að sjálfsögðu en það verður að segjast að bakhlutinn er ekki í góðri æfingu og þarf að þjálfa betur. Það gerðum við strax í dag nema nú fórum við í hina áttina og byrjuðum á móti vindi, við hjóluðum alla leið til Lögstrup 8 km. Í bakaleiðinni höfðum við svo vindinn í bakið og vorum heldur ánægðar með okkur. Það er frábært að ferðast á þennan máta, horfa í kringum sig, finna vor ylminn í loftinu og auðvitað líka minna góða lykt.
Ég var í dag líka að glíma við Barndommens gade eftir Tove Ditlevsen átti að skrifa útdrátt úr sögunni eins og aðrir 10. bekkingar. Minn þurfti ekki að vera mjög bókmenntalegur en ég átti að sýna orðaforðan. Það er nú meira hvað sú saga er dapurleg en vel skrifuð er hún því verður ekki neitað. Næst á ég að lesa aðra bók eftir Tove sem heitir Gift. Kennarinn lét mig líka fá nokkur verkefni um orðanotkun sem ég leysti og á að skila á þriðjudaginn.
Ég er að ráðast í risastórt verkefni í vefnaði eins og ég hef minnst á, ætla að vefa dúk á borðstofuborðið. Hann er úr bómull og hör, uppistaðan er bómull 1884 þræðir og þó að ég sé nú þegar búin að sitja við og draga í haföldin í nærri 5 klukkutíma er ég ekki búin með þriðja hlutann enn. Svo að morgundagurinn er fyrirsjáanlegur ég mun sitja við og draga í haföld og örugglega ekki gera neitt annað. En ég hlakka mjög til að byrja að vefa og það drífur mann áfram.
Bestu vorkveðjur frá Skals.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 4. mars 2007
Brúðkaup og óeirðir
Það hefur lengi verið ósýnilegur þráður milli okkar Alexöndru eða alveg síðan hún og Jói ákváðu að gifta sig sama dag og við Ásbjörn. Ég hef því fylgst með henni í gegnum súrt og sætt og gleðst nú með henni því að í gær gifti hún sig aftur, eins og allir vita skyldu þau Jóakim, nú er hún sem sagt gift ljósmyndaranum sínum. Það er til þess tekið hversu alvarlega hann tekur hlutverkið að giftast konu með 2 börn, hann fer meira að segja með drengina í skólann. Nú er framundan mikil spekúlasjón hjá Margréti Þórhildi um það hvernig á að haga samskiptum við nýju fjölskylduna og hvað ef það koma prinsahálfsystkini, á að bjóða þeim með eða skilja útundan?
Ragnheiður getur ekki kennt mér núna um óeirðirnar í Kaupmannahöfn þó að lætin hafi verið grunsamleg í desember. Hér hefur um fátt annað verið talað síðustu daga nema auðvitað brúðkaupið þó það hafi eiginlega fallið í skuggann af þessum látum. Danir eru slegnir yfir þessu og samúð er minnkandi með ungdómshúsafólkinu. Sumar skólasystur mínar telja þó að núverandi eigandi hafi verið mjög ósveigjanlegur, verið boðið ýmislegt en ekki viljað þiggja.
Ég fór í gær til Århus með mæðgunum á H.C. Andersenvej, fór héðan með strætó kl 8 og kom heim með síðasta strætó kl 18, þannig eru samgöngur hér í sveitinni á laugardögum. Við skemmtum okkur ágætlega fórum í dómkirkjuna því eins og sumir vita þá kæta kirkjur alltaf gaman að skoða þær! Svo rápuðum við í búðir og kaffihús, gerðum góð kaup eins og vera ber.
Hef setið við bróderí í dag fyrir utan einn mjög góðan göngutúr niður að firði í dásamlegu vorveðri, fékk meira að segja dálitla sól á nefið!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. febrúar 2007
Ferðasaga
Sat við vefinn í gær er búin með löberinn og eina diskamottu, ætla að taka a.m.k. eina í dag. Ég er auðvitað farin að velta næsta verkefni fyrir mér og er að spá í dúk á stofuborðið. Það er nokkuð stórt verkefni en kennarinn sagði í lagi að hann kláraðist ekki á 3 vikum. Við eigum sem sagt 3 vikur eftir í vefnaði og prjóni.
Eins og mátti skilja á blogginu frá í gær fékk ég eiginmanninn í heimsókn. Ég fór af stað héðan á fimmtudegi fyrir rúmri viku til að hitta hann og auðvitað Ragnheiði og Jacob í Kaupmannahöfn. Við hjónin gistum á hóteli eins og fínt fólk og höfðum það næs! Föstudaginn notuðum við til að rápa í búðir og kaffihús og borða góðan mat með dóttur og tengdasyni á Riz Raz. Ég held bara að það sé uppáhaldsstaðurinn minn í Köben bæði ódýrt og gott. Á laugardeginum skoðuðum við sýningu á verkum Ólafs Elíassonar og Kjarvals á Gammel Strand. Gaman að sjá verk gamla meistarans við hlið nútímalegri verka, öll verkin tengjast þó náttúrunni. Þar gafst Ragnheiður upp taldi einn menningarviðburð nóg fyrir sig, við Á. fórum hins vegar á Carlsbergs Glyptotek. Þangað er líka alltaf gaman að koma, þar eru m.a. höggmyndir frá ýmsum tímum t.d. 3000 f.kr. Fyrir utan hvað húsið sjálft er fallegt. Næsta verkefni var að finna smörrebrödsstað því ég hafði lofað sjálfri mér að nú væri komið að því að prufa slíkt. Við fórum með kunningja Ásbjarnar og Ragnheiður slóst aftur í hópinn ( búin að ná sér niður í nokkrum búðum ) á stað við hliðina á Hvids ég held að staðurinn heiti Skinnbuxurnar. Fengum ágætt brauð og skemmtilegt spjall. Um kvöldið urðum við svo vitni að því, i góðu matarboði í Örestad, að Eiríkur Hauksson vann Evróvisíon. Það þótti nokkuð merkilegt í þeim hópi.
Sunnudagsmorgunn var tekinn snemma enda þurfti að sækja bílaleigubílinn ( pútuna ) . Við tókum stefnuna á Fjón, ég ætlaði að sýna Ásbirni frábæran stað Egeskov slott sem við Hraundísir ( hjólasystur 1994 ) skoðuðum. Þegar þangað kom var allt lokað og opnar fyrst í apríl, við nenntum ekki að bíða þangað til. Keyrðum næst til Faaborg, þar skoðuðum við bæinn og höfnina, líka upprifjun frá 1994. Faaborg er fallegur bær en það er mjög skrítið að ferðast um Danmörku á þessum árstíma, fáir staðir opnir og kalt. Við fundum svo gistinguna okkar í Viborg í elstu götu borgarinnar, lítil íbúð á besta stað í bænum en rúmin reyndust frekar döpur fyrir öldruð hjón eins og okkur, það endaði með að ég svaf í eldhúsinu eins og hver önnur eldhússtúlka. Önnur aðstaða var ljómandi fín.
Mánudagurinn var tekinn rólega fórum í bíltúr um nærsveitir Skals, skoðuðum litla bæinn Hjarbæk hér við fjörðinn, keyrðum svo stystu leið til Birthe í Örum. Tilgangurinn var að mæla hversu langt væri að hjóla til hennar, það reyndust vera uþb 20 km. Svo að þangað er hægt að hjóla á góðum degi þegar að snjóa leysir. Við vorum boðin í kvöldverð til þeirra Birthe og Mogens og það var auðvitað eins og áður alveg frábærar móttökur og matur.
Á þriðjudag keyrðum við til Grenaa og skoðuðum Kattegat museum stórt og flott sædýrasafn. Keyrðum svo til Ebeltoft rúntuðum um bæinn og auðvitað höfnina, sáum flottar skútur. Þegar þarna var komið var farið að rigna og lítið hægt að fara út úr bíl.
Miðvikudagsmorgunn rann upp og nú lá leiðin til Skals því Ásbjörn sem fulltrúi minn í holli 2 ætlaði að kynna safnið sitt. Það gerði hann og vakti stormandi lukku, sýndi myndir og sagði frá. Hann meira að segja fangaði athyglina svo að næstum engin prjónaði á meðan!! Síðan keyrðum við til Viborgar og lögðum bílnum því nú var komið leiðinda veður, vonandi hefur einhver frá bílaleigunni getað náð bílnum ú stæðinu því að þarna skildum við við hann á fimmtudagsmorgun. Við tókum lífinu svo bara með ró þennan dag, fylgdumst með veðurfréttum en hvorugt okkar trúði því þó að allt yrði ófært, ekki í Danmörku!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Sigga í Skals
Myndaalbúm
Tenglar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar