Heimþrá

Kláraði endanlega jólagjöfina handa Ásbirni áðan, er bara nokkuð ánægð með mig.  Þá eru flestar jólagjafirnar tilbúnar.  Ég hef átt "erfitt" með að sætta mig við að það er hvergi hitamæli að sjá og sem sönnum Íslendingi er tamt, verð ég að vita hvernig hitastigi er háttað.  Ég fékk mér göngutúr í gær að eina opinbera hitamælinum hér í Skals og það voru 4 gráður.  Mér var létt um stund, nú er hins vegar grenjandi rigning og rok og örugglega annað hitastig!!!

Í augnablikinu er ég með tvo trefla í "dekateringu" sem ég veit ekki hvað þíðir.  Það er þannig að þeim er rúllað inn í léreft og sett í ákveðið tæki með smá vatni.  Vatnið er hitað og gufan látin leika um afurðina.  Síðan er þetta látið kólna í klukkutíma, ullin verður létt og krumpast síður í þvotti skilst mér.  Svo ætla ég að þræða saman kjól og ath hvort eitthvað vit er í honum.

Allt í einu núna þegar sér fyrir þennan enda dvalarinnar er ég orðin svo óþolinmóð að komast heim, þessi tilfinning helltist yfir mig í gær.  Annars enn nóg að gera og ekki slitna útiskórninr, það hefði næstum verið nóg að hafa bara inniskó.  Hlakka til að sjá ykkur öll.


Tónleikar

Tvær konur hraða sér niðurlútar í regni og næturmyrkri eftir steinlögðu og illa lýstu Sct Mogens stræti.  Ferðinni er heitið í Dómkirkjuna til fundar við mikilmenni í tónlistarheiminum, sjálfan Hendel.  Við Anna Birna fórum sem sagt í kvöld á Messías eftir Hendel í Viborgar Dómkirkju.  Á leiðinni þangað rigndi þvílík ósköp  og þess vegna datt okkur í hug að við hefðum getað verið sögupersónur í Dickens sögu, mest vegna myrkurs og steinlögðu strætanna.  Best að bulla ekki meira.  Tónleikarnir voru upplifun, hljómsveitin Det Jyske Ensemble og kórinn Coro Misto voru mjög góðir og einsöngvararnir áttu góða spretti.  Frábært að sitja í þessari stóru fallegu kirkju og hlusta á fallega tónlist.

Heimsókn

Hér er að verða jólalegt, bæjarstarfsmenn settu fallegt jólatré fyrir utan gluggan minn, auðvitað!  Skólinn hefur líka verið skreyttur, kertaskreytingar, hafrakransar, bjöllur og fleira.  Skals hefur líka fengið andlitlyftingu, fallegar ljósaseríur yfir aðalgötuna og Viborg er ljósum prýdd.  Hér er unnið af kappi langt fram á kvöld, til að ná að klára afurðirnar.

Í gær bauð Birthe okkur íslensku konunum heim til sín en fyrst fengum við að skoða skólann í heimabænum hennar Ørum.  Þar tók kennslukona á móti okkur og sýndi okkur og sagði frá bara huggulegasti skóli en engin börn þar sem áliðið var orðið.  Síðan fórum við heim til Birthe og Mogens mannsins hennar.  Þar vorum við í góðu yfirlæti langt fram á kvöld, þarf ekki að taka fram að veitingarnar voru ljúffengar bæði matur og drykkur.  Það er ómetanlegt að kynnast svona frábæru fólki.

Í morgun var bróderí til hádegis síðan tókum við strætó með Henning litteratur kennara.  Ferðinni var heitið í Viborg og þar leiddi Henning okkur um stræti og torg og sagði frá húsum og atburðum.  Skoðunarferðin endaði í Viborgardómkirkju og þar var ekki komið að tómum kofanum hjá Henning.  Að lokum fórum við á vertshús í kjallara einum við Dómkirkjustræti, gamall bruggkjallari, mjög huggulegur og flottur. 

Morgunandaktin í morgun var á mína ábyrgð.  Ég sýndi In memoriam myndina hans Ómars Ragnarssonar um Kárahnjúka.  Það er skemmst frá því að segja að skólastúlkurnar voru orðlausar bæði yfir framkvæmdinni og fegurð landsins.  Þessi sýning var mikilvægur hluti í tækniþjálfun minni, ég tengdi sjálf tölvuna og skjávarpann og gat gert tenginguna virka með leiðbeiningum í síma.  Tengdi hátalara og hvað eina.  Stolt núna!!!   Það var mikill munur að geta sýnt á vegg en þurfa ekki að horfa á sjónvarpið allar saman.

Best að halda áfram að vinna bið að heilsa öllum. 


Veisla

Það eru víst ekki ný tíðindi að nóg er að gera í hannyrðunum en það dró til tíðinda á föstudagskvöldið.  Það hafði nefnilega verið ákveðið fyrir meira en mánuði síðan að halda veislu þann 1. des ( ekki endilega til heiðurs lýðveldinu ).  Skólastúlkur höfðu skipt með sér verkum og sumar tekið að sér að útbúa forrét aðrar aðalrétt o.s.frv.  Um kl 5 var safnast saman og drukkinn velkomst drykkur og borðaðar litlar smjördeigskökur með pizzubragði.  Það þarf varla að taka fram að námsmeyjar voru í sínu fínasta pússi.  Klukkustundu síðar var sest til borðs og borðuð graskerssúpa með vanillubragði og lítilli laxasneið.  Súpan var borin fram í stóru sjússaglasi og laxinn á brúninni.  Myndir nóvember og 1.des 2006 102Töluvert seinna var borin fram fiskikæfa (pate), síðan kom intermezzo ein og þær kölluðu sorbetinn.  Aðalrétturinn var nautakjöt og tilbehør.  Athyglisverðast fannst mér rósakálið sem var vafið inní bacon bragðaðist mjög vel.  Síðast var svo hnetukaka og kaffi og muskatvín.  Með þessu öllu var drukkið hvítvín og rauðvín en það er varla að sést hafi vín á nokkurri konu.  Danir kunna að halda veislur og vera í þeim, við vorum að klára desertinn um  ellefuleitið, allt svo smekklega borið fram og mátulega mikið þannig að maður var aldrei illa saddur leið bara vel.  Þegar borðhaldið var hálfnað kom bróðir einnar sem er galdrakarl og töfraði fyrir okkur og ekki má gleyma happadrættinu, miðarnir voru seldir með hálfs mánaðar fyrirvara!  Aðalvinningurinn var nótt með Rasmusi Nør, það hefur aðeins verið grínast með goðið síðan tónleikanóttina góðu (tryggir lesendur þekkja þá sögu). 

Mér tókst að senda íslensku ritgerðina mína 1. des. og ég verð að segja að það var mikill léttir.  Þessi ritsmíð vafðist ótrúlega fyrir mér, stemmingin var að lokum orðin frekar ungmennafélagsleg,  markmiðið er að taka þátt og vera með ekki að vinna og undirmeðvitundin farin að undirbúa hörmungar. 

Fór í bæinn í gær Viborg orðin jólaleg, möndluylmur í lofti, jólasveinar á ferð, ys og þys.  Eftir akkúrat tvær vikur verð ég komin heim á gamla landið eins og vesturfararnir sögðu.  Hlakka til að drífa jólin upp og hafa heilt hús undir mig.

 


Ekki of léleg og ekki of góð!

Var að koma úr bænum erindið þangað var að fara í viðtal við námsráðgjafa í VUC (voksenuddannelsescenter).  Viti menn ég kemst á námskeið eftir jól með dönum sem þurfa að bæta móðurmálið sitt, mætti líka segja seinum dönum.  Ég verð einu sinni í viku í þrjá og hálfan tíma í senn og hlakka bara til.

Það er svo brjálað að gera að ég t.d. sat við vefstólinn í gær til kl hálf tíu til að klára ( axlirnar sögðu hættu,hættu en þær fengu ekki að ráða ) svo að ég geti sett aftur upp í vikunni, þetta er nefnilega síðasta vefnaðar vikan mín fyrir jól.  Á morgun er prjónadagur og þá ætla ég að klára tösku sem ég er að prjóna. 

Í síðustu viku bárust þau tíðindi að verkið mitt í bróderíi var valið ásamt 3 öðrum til myndatöku í Hendes Verden, myndatakan verður í janúar og birtist í einu marsblaðanna.  Ég var nú frekar undrandi vegna þess að ég nennti varla að vinna þetta, vildi heldur halda áfram við allt hitt sem ég hafði í gangi, sem sagt ekki mjög metnaðarfull í þessu samhengi. 

Á föstudag og laugardag vorum við á hattanámskeiði.  Við lærðum að búa til filthatta (held að þeir heiti það ) úr kanínuhári.  Við stóðum í marga tíma í gufubaði á meðan verið var að koma réttu lagi á hattana, þeir urðu mjög mismunandi með allskonar börðum stórum og litlum.  Minn líkist mest lögguhatti úr bresku löggunni nema hann er brúnn.  Æ ég veit ekki hvort ég set hann nokkurn tíman upp en það var gaman að prófa einu sinni að gera hatt. 

Fimmtudagurinn í síðustu viku var undir yfirskriftinni litir og stíll.  Við vorum látnar standa upp ein í einu og hinar áttu að finna út hvernig kroppurinn væri, hvort hann væri t.d. öfugur þríhyrningur eða kantað peruform eða beinn eða stundaglas o.s.frv.  Skólasysturnar voru allar sammála um að minn kroppur væri eins og stundaglas.  Næst skoðuðu þær andlitið og það mun vera rétthyrningur ekki ferningur og síðast fundu þær út ég væri haust.  Þær voru nokkuð lengi að finna út með litinn því það virtist sem allir litir klæddu mig, ég benti þeim á að ég væri aller tiders. 

Ég er að böglast við að semja ritgerð fyrir íslenskuna það verður að viðurkennast að einbeitingin er ekki mikil, það er nokkuð margt annað sem er meira spennandi.


Kaupmannahöfn

Það líður alltaf lengra og lengra á milli skrifa, það er vegna mikilla anna.  Við stúlkurnar á Skals handavinnuskólanum brugðum undir okkur betri fætinum og fórum í studietur til Svendborgar og Kaupmannahafnar á fimmtudaginn.  Héðan var ekið af stað í rútu kl 7 á fimmtudagsmorgninum og keyrt áleiðis.  Eftir eins og hálfs tíma akstur var áð á bensínstöð, þar var dregið fram kaffi og bollur og borðað á bílaplaninu í kulda og trekki.  Síðan keyrt til Svendborgar sem er á Fjóni (þar var allra fyrsti náttstaður hjólafélagsins Hraundísa í júní 1994).  Í Svendborg skoðuðum við vinnustofu ungs vélbróderímanns Thomasar Sjölanders.  Það var alger upplifun, hann hefur unnið búninga fyrir ýmsar kvikmyndir t.d. Harry Potter, Memoirs of a Geisha og margar fleiri og útsaumurinn var svoooo flottur!!!  Við fengum líka að sjá saumavélina, hún er með 15 nálum og getur saumað með jafnmörgum litum.  Útsaumarinn vinnur mynstrin á tölvu og ákveður í hvaða röð hver litur á að koma og hvers konar spor. 

Eftir þetta fórum við beint til Kaupmannahafnar og í heimsókn til 5 listamanna sem hafa vinnustofu saman á Nörrebrogötu.  Við hittum tvær mjög ólíkar vefnaðarkonur önnur sagðist mest vinna með pappísrgarn stór veggteppi,  það var gaman að sjá og heyra hvernig hún vinnur verk sín.  Hin var að vinna að risastóru veggteppi sem var túlkun hennar á ísbreiðu við Grænland.  Merkilegast fannst mér við hana að hún hafði fundið upp risastóran ferða vefstað.  Hún gat sem sagt tekið verkið 2m * 3m og skellt því upp í sumarhúsinu sínu, held samt að það þurfi sæmilegan bíl til flutninganna.  Síðasti listamaðurinn sem við hittum þarna var tauþrykkjari, hann sagði okkur líka frá sínum verkum og sýndi smávegis.

Um kvöldið fórum við í leikhús og sáum Sylfiden í Aveny Teatret.  Sylfiden er þýtt sem loftdís í orðabókinni það orð hef ég aldrei heyrt fyrr.  Mér skilst hins vegar að verkið byggi á ballett og þarna er uppfærslan í hipphopp stíl, mikill dans og fimleikar af ýmsu tagi.  Mjög skemmtileg sýning en ég er ekki nógu vel að mér í ballett að ég viti hvað hann heitir á íslensku.

Á föstudagsmorgni var svo farið í smá skoðunarferð um Kaupmannahöfn og meðal annars kíkt á Óperuna að utan.  Mikilfenglegt hús og það sást vel í listaverkið hans Ólafs Elíassonar í anddyrinu.

Næst var svo skemmtileg heimsókn á saumastofu Aveny leikhússins, þar stigum við á svið og fórum um allt hús, skoðuðum t.d. búningageymsluna sem var niðri í kjallara og bara fyrir lágvaxna.  Okkur voru sagðar sögur af tilurð búninganna sem við sáum á sviði kvöldinu áður, það er ekki sama hvar t.d. rennilásar eru þegar dansa á í búningnum og hvernig þurfti að styrkja ákveðna staði eftir því hvort dansarinn dansar mikið á höfðinu eða bakinu eða öðrum líkamshlutum!!

Að síðustu fórum við í tilskæringsakademiet það er sníðaskóli með 5 mánaða námskeið og líka önnur styttri.  Þetta var líka fróðleg heimsókn. 

Eftir þetta var frjáls tími og svo keyrðu flestar heim, ég varð eftir í Kaupmannahöfn því að ég hafði átt stefnumót við hana Ásu og við fengið lánaða íbúðina hans Jacobs kærastans hennar Rarnheiðar, þau voru nefnilega á Íslandi um helgina.  Við skemmtum okkur konunglega, tókum skrens í búðum og heimsóttum kunningja.

Á heimleiðinni með lestinni munaði bara nokkrum lestarvögnum að ég lenti í bandítum!  Lestin var stöðvuð í Horsens og bandítarnir handteknir.  Þeir höfðu þá rústað vagni 8, mikið var ég fegin að vera ekki í vagni númer 8.  Við hin fréttum bara af ósköpunum þegar lestin var að fara af stað eftir 20 mín bið.  Maður hefði svo sem alveg eins getað lennt í vagni 8!!!!!

Í gær var valfagsdagur og við sem völdum þæfingu fórum heim til Inge Marie til Lögstör.  Þar hefur hún frábæra vinnustofu og smekklega.  Við gerðum nokkrar prufur og eigum svo að vinna útfrá þeim næstu mánudaga.  Síðan er bara ofið öllum stundum og prjónað.


Hasar á heimavist

Eins og dyggir lesendur muna kom hingað ungur poppsöngvari um daginn og söng fyrir skólastúlkur í hádeginu.  Það þótti því sjálfsögð tryggð við goðið að storma á tónleika hjá honum og hljómsveit hans í Viborg á föstudagskvöldið.  Við íslensku valkyrjurnar létum ekki okkar eftir liggja og hækkuðum heldur meðalaldurinn bæði í skólastúlku hópnum og líka á tónleikunum.  Það er skemmst frá því að segja að það var mjög gaman, okkur forngripunum þótti þó heldur undarlegt að hvergi var sæti að finna heldur stóðu allir uppá endann.  Eldri borgararnir fóru svo bara heim að loknum tónleikum en yngri skólastúlkurnar máluðu bæinn rauðan.  Um morguninn fréttist svo um húsið að stjarnan væri sofandi  í setustofunni og eins og ein sagði síðar: Honum hefur líklega verið lofað gulli og grænum skógum eða amk gefið í skin.  Hvað sem því leið sást ( út um gluggann minn ) hvar stjarnan beið frekar þreytuleg eftir að vera sótt. 

Helgin fór í að klára að vefa löberinn og framleiða jólagjafir say no more!!!

Ég gleymdi að segja frá því að í síðustu viku var ein morgunstundin notuð til að skera í grasker því að allraheilagramessa ( kannski heitir það allrasálnamessa ) var í þeirri viku.  Síðan var sett kerti inní og kveikt á því þegar skyggja tók öll kvöldin í vikunni.  Litteratur maðurinn hann Henning sagði frá því að áður fyrr notuðu danir rófur sem þeir skáru út úr og settu ljós í til að fæla burt illa anda og að sá siður væri eldgamall. 

Við bróderuðum í skyrtur í síðustu viku, það var gaman að sjá hve mismunandi þær urðu og nú hefur skólastýran pakkað þeim saman og sent til Hendes Verden aldeilis spennandi!!!

Framundan er einn vefdagur og annar prjónadagur og síðan er studietur til Svendborgar og Kaupmannahafnar.  Það á að skoða hjá prjónahönnuði, saumastofu í leikhúsi og fleira. 


Prjóna-Hans

Best að láta ekki líða of langt á milli.  Nú líða dagarnir ótrúlega hratt og enginn tími fer til spillis.  Í síðustu viku óf ég, prjónaði og gerði skartgripi.  Á fimmtudaginn var handavinnudagur.  Þann dag var skólinn opinn gestum og gangandi.  Hingað komu tæplega 100 skólabörn.  Kennararnir og "praktikantarnir" höfðu skipulagt verkstæði og við nemarnir máttum aðstoða ef við vildum eða sitja við okkar vinnu.  Ég aðstoðaði Önnu Birnu praktikant við að kenna puttaprjón og að prjóna venjulega.  Tók sig upp gamall handavinnukennari!  Hér læra börn bara handavinnu í 5. og 6. bekk og þau geta valið skilst mér smíði eða sauma.  Enda hafa sumar skólastúlkurnar hér aldrei prjónað fyrr en nú, sem þýðir auðvitað að það er himinn og haf á milli okkar.  Handavinnudagurinn var skemmtilegur, börnin prúð og áhugasöm. 

Á föstudagskvöldið gerði ég mér dagamun og skrapp í bíó í Viborg.  Ég sá glænýja danska mynd sem heitir Prag, mér fannst hún ljómandi góð.  Enn vantar þó nokkuð upp á færnina í dönskunni, ég áttaði mig á að ég skil ekki nógu vel þegar salurinn hló án þess að ég sæi ástæðu til!  Eftir bíóferðina fórum við stöllur heim til Önnu og prjónuðum fram eftir kvöldi.  Ég var að prufukeyra nýja græju sem ég keypti mér.  Græjan sú heitir Prjóna-Hans og er náskyldur þeim Prjóna-Lísu og Prjóna-Guddu, hann er bara eins og karlkyni sæmir stærri og sterklegri.  Það verður að segjast eins og er að prjónaskapurinn gekk vel.

Helgin fór svo í verkefnavinnu í íslenskunni og fleiri verkefni sem hafði dregist að vinna.

Á mánudagsmorgun var samkvæmt venju morgunandakt og nú fengum við kennslu í að prjóna á snaga, það er auðvitað augljóst að sú aðferð er náskyld þeirri sem notuð er á hann Prjóna-Hans, nema bara prjónað fram og til baka.  Kennarinn var meira að segja með heila bók um málefnið!!  Það er sem sagt ýmislegt til.

Þessi vika númer 45 er helguð útsaum og verkefnið er að skreyta skyrtur með fangamörkum, skyrturnar verða síðan sendar til Hendes Verden, nokkrar valdar og myndaðar.  Herlegheitin birtast svo í einhverju marsblaðanna næsta vor.  Skemmtilegt orð fangamark, hafið þið velt því fyrir ykkur?

Á hverju kvöldi er hér kennari á vakt, þeir leiðbeina í sínu fagi.  Í gærkvöldi var þæfingarkonan að aðstoða við frágang á töskum og fleiru og í kvöld er keramik kennarinn, hjá henni erum við að gera smáhluti úr postulíni.  Þannig að það eru fáar dauðar stundir hér.

Kærar kveðjur

 

 


Listasaga

Ekki má slá slöku við!

Á föstudaginn var listasögudagur,hann reyndist skemmtilegur þrátt fyrir setu á bekk allan daginn.  Kennarinn sagði skemmtilega frá, sýndi myndir og lét okkur í smá hópum lesa okkur til um listaverk og segja frá.  Fengum hálftíma til að undirbúa okkur.  Það er forvitnilegt fyrir kennara ofan af Íslandi að velta fyrir sér muni á dönskum og ísl nemendum.  Þegar kennarinn spurði um eitthvað, það gat verið hvað við héldum um ákveðinn hluta myndar, hvort það væri t.d. tákn, þá stóð aldrei á svörum hjá ungu stelpunum og þær færðu rök fyrir máli sínu.  Ekki nóg með að ein svaraði heldur komu fleiri tillögur.  Ég er ekki viss um að allt hafi endilega verið gáfulegt en allt var rætt.  Við þurfum endilega að æfa okkar krakka í að hafa skoðun og rökstyðja hana!  (Kennari í orlofi! ). 

Laugardagurinn var helgaður gömlum nemendum 80 konur sem skiptust í hópa og skemmtu sér við bróderí, þæfingar, pappírsfléttur og fleira.  Mér fannst merkilegt að það var eiginlega ekki ætlast til að við værum hér eða tækjum þátt.  Ég  hefði haldið að það væri hagur nemendasambands að sannfæra okkur hvað væri gaman hjá þeim til þess að við kæmum með næst, en kannski eru bara alveg nógu margir gamlir nemendur!  Við fórum í kaupstaðarferð í staðinn.  Þegar við komum heim sneri ég mér að því að sauma botn á þæfðu töskuna mína og er langt komin með það.  Vefnaðarkennarinn var svo á kvöldvakt og hún kenndi mér að draga í haföld og kamb. 

Sunnudagurinn var langur því nú er kominn vetrartími og við græddum klukkutíma.  Ég gekk frá peysu sem ég var að prjóna og bróderaði svo fram yfir hádegi, þá dró ég í haföldin og kambinn.  Það kláraði ég rétt fyrir kl6 og fékk svo hjálp hjá kennaranum á kvöldvakt við kápusaum.  Klukkan 8 er svo helgistund þá er horft á Örninn ótrúlega spennandi. 

Í dag var svo skartgripagerð frá 9-5 kennarinn var að bæta okkur upp veikindadaginn sinn.

Það var undarlegt að vera ekki í hringiðunni um helgina þegar skipt var á Stekkjarkinninni og íbúð á Breiðvangi.  Nú er æskuheimilið ekki lengur á sínum stað, en það kom fjölskylda með nokkur börn svo að það verður aftur líf í húsinu og vonandi líður þeim vel.

Hér hefur verið leiðindaveður rigning og vindur en mér skilst að það snjói á Húsavík.  Hér var reyndar slydduspá fyrir fimmtudag, ekki víst að það rætist.


Sorg og gleði

Enn ein vikan að líða, þessi hefur verið bæði góð og slæm.  Ég hef verið við rúmstokkinn vegna lumbru, var með eins og ég gat og dormaði þess á milli.  Það er nefnilega ekki hægt að vera bara heima því að maður er í húsinu, svona er þetta í heimavistar skóla.  Nú er heilsan heldur betri og héðan í frá er allt uppávið!!

Það var líka erfitt að vera langt í burtu þegar Perla okkar veiktist og dó svo á þriðjudagskvöldið.  Það er helst haldið að hún hafi komist í eitthvað eitur, þess vegna vildi dýralæknirinn senda hana suður í krufningu, það er alvarlegt mál ef svo er.  Þannig að nú er tómlegt hjá þeim feðgum í Laugarbrekkunni.

Í þessari viku er samband húsmæðra og handavinnuskóla hér í Danmörku 100 ára og af því tilefni hafa verið hátíðarhöld ýmiskonar.  Á miðvikudaginn sem var afmælisdagurinn sjálfur var eldaður gamaldags matur, það var kjöt í brúnni sósu og kartöflumús en á undan fengum við eplasúpu með tvíbökum.  Eftir matinn sagði stofnandi skólans frá.  Hún er á níræðisaldri en var lifandi ( meina hress ) og virtist muna allt í smáatriðum.  Hún keypti skólahúsið 1959 þá 32 ára gömul af því að hún vildi endilega koma á fót skóla sem biði upp á fjölbreytta handavinnukennslu ekki bara útsaum úr pökkum.  Hún lýsti því hvernig hún tók húsið í gegn næstum ein ef ég skildi hana rétt.  Hún átti og rak skólann fram á tíunda tug síðustu aldar. 

Í hádeginu í dag voru svo tónleikar, hingað kom danskur poppari, kannski líkastur okkar Mugison, sá heitir Rasmus Nöhr og ku vera vel þekktur hér amk voru smápíurnar spenntar.  Það var gaman að fylgjast með þegar starfsfólkið undirbjó komu þeirra ( það voru tveir með honum ).  Þeir höfðu beðið um að hafa baðaðstöðu og fá eitthvað að borða.  Þær báru inn í eitt af herbergjunum blóm og körfur með gosi og flögum og eitthvað fleira fínerí.  Tónleikarnir sjálfir voru glimrandi góðir, sætur strákur sem spjallaði vingjarnlega við áheyrendur sem blístruðu og klöppuðu á milli laga.  Áheyrendur voru næstum eingöngu konur og meðalaldurinn örugglega 40 ár.  Mjög gaman.

Nú er síðari hluti dvalarinnar hafinn þ.e. mitt holl er byrjað í vefnaði og prjóni  Prjónaverkefnið er taska en við megum ráða hvað við vefum.  Ég er búin að rekja í löber og held áfram í næstu viku. 

Á morgun er listasaga allan daginn og nú skal setin maraþonseta á píningarbekkjunum í morgunandaktarsalnum, það er eins gott að það verði gaman!  Kennarinn lét sem betur fer þau boð út ganga að við mættum prjóna þannig getur maður kannski gleymt bíb bekknum!!!

Meira síðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigga í Skals

Höfundur

Sigríður Jónsdóttir
Sigríður Jónsdóttir
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Svartsaumsdúkur
  • Svartsaumur
  • Púðaband
  • Stoppsaumur
  • Askja

Tenglar

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband