Sunnudagur, 22. október 2006
Þæfing
Hér hefur verið alveg brjálað að gera. Í síðustu viku vorum við að þæfa ( ekki fæða, fjölskyldubrandari ).Inge Marie Regnar sú kjarnakona var kennarinn okkar hún þurfti aldrei að sofa held ég. Allavega var þæft langt fram á kvöld alla dagana nema á miðvikudaginn, þá þurfti hún að skreppa heim til sín til að halda eitt námskeið um kvöldið. Ótrúleg kona og svo flink og ráðagóð, það voru því margir mjög fallegir og eigulegir hlutir sem urðu til í vikunni. Það voru þæfðar töskur í öllum mögulegum stærðum og gerðum, treflar, sjöl, inniskór, borðhlífar, dropafangarar, húfur, vettlingar, hanskar, utan um kaffikönnur, rauðvínsflöskur og örugglega eitthvað fleira sem ég man ekki í svipinn. Það er auðvitað töluverð vinna að ganga frá þannig að fallegt sé, en Inge Marie er sérlega flink við slíkt. Hún lét okkur nota leður, gummi og alls konar flotta hnappa og lokun á töskurnar. Það kom á óvart að hún lætur nota minna vatn heldur en ég hef áður séð, þannig að þetta var ekki svo voðalegt sull.
Á miðvikudaginn eftir skóla kl 3 fór Birthe skólasystir með okkur íslensku konurnar í udflugt. Hún vorkennir okkur að komast aldrei í burtu frá skólanum og auðvitað aldrei heim. En jæja, hún var búin að hugsa sér að fara með okkur í skógarferð í Dollerupbakkene en það rigndi eldi og brennisteini þennan dag svo að plan b var dregið fram og það var ekki síðra. Birthe fór með okkur í 1000 ára gamlar kalknámur hér ekki lengt í burtu Mönsted kalkgruber. Þar lengst inni verka menn ost, það er nefnilega alltaf 98% loftraki og 8°C, það ku vera kjöraðstæður fyrir ost enda var ylmurinn dásamlegur. Þegar við svo settumst niður til að horfa á kynningarefni dró Birthe kaffi og bakkelsi uppúr pússi sínu, ekki amalegt það!
Síðan fór hún með okkur heim til sín, þar var Mogens maðurinn hennar búinn að græja veislumáltíð fyrir okkur. Þetta var fjórrétta máltíð, fyrsti rétturinn voru jómfrúarhumarhalar, síðan fiskur sem við gátum ekki áttað okkur á, því næst lambakjöt og að lokum ís. Allt var þetta borið fram á mjög fallegan máta. Þetta var frábært kvöld mikið hlegið og spjallað auðvitað misgáfulegt, þar sem stundum vantar mann orð!
Ég held ég hafi ekki látið það enn koma fram að ég er í fjarnámi fyrir íslensku kennara við KHÍ. Ég var að klára annað verkefnið áðan og nú bíð ég spennt eftir viðbrögðum. Ég var auðvitað ekki í staðnáminu á Akureyri í haust og veit ekki alveg hvað þar fór fram, kannski veð ég í villu og svíma en það kemur í ljós ég ætla amk að reyna áfram.
Í næstu viku er svo valfagið á morgun smykker síðan fer mitt holl í vefnað og prjón og á föstudaginn er listasaga ef ég skil planið rétt, svo það er nóg að gera.
Bið að heilsa öllum
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 14. október 2006
Komin til baka
Komin aftur til næturdvalar í Skals. Hér er 12 stiga hiti og sólskin í dag, yndislegt haustveður. Fór í stuttan hjólatúr á gullfáknum, hvernig væri nafnið Gyllir, allir almennilegir fákar heita eitthvað. Keypti líka nokkra ávexti þar sem kosturinn hér um helgar er heldur dapur.
Barnfóstrustörfin gengu mjög vel, börnin góð og dugleg. Eldra barnið fékk það lokastarf í gær að kemba barnfóstruna. Já, ég hélt ekki að lús yrði á vegi mínum hér í fullorðinsskóla, en 3 skólasystur mínar voru hýslar í síðustu viku svo að það er eins gott að fylgjast með sínum haddi. Ég læt það fylgja með að ekkert fannst í þetta sinn!!!
Síðasta vika var helguð fatasaum og mín er að böglast við að sauma sér kápu, efnið er fallegt en læpulegt og ekki mjög þétt ofið svo að þetta er nokkur barátta. Ég er svo heppin að saumakennarinn er með aftenvagt í kvöld og ég ætla að nýta mér það.
Hér í Skals er bókasafn, ekki mjög stórt en nægir amk í byrjun, ég er sem sagt að reyna að vera dugleg að lesa dönsku í þeirri von að mér fari fram við það. Eins og kunnugt er vildu þeir mig ekki í dönsku fyrir útlendinga ég var held ég of góð fyrir einn hóp og ekki nógu góð fyrir hinn. Svo er röflað yfir því að útlendingar nenni ekki að læra málið. Ætli það sé léttara að fá að læra íslensku?
Nóg í bili
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 9. október 2006
Helgin
Kominn mánudagur aftur og nú bregður svo við að kennarinn er veikur. Eins og allir almennilegir nemendur vita á maður að nota tækifærið og slæpast, en nei maður sér sér leik á borði og vinnur upp gamlar syndir eins og hægt er. Ákvað nú samt að blogga.
Við mæðgur allar 3 höfðum það fínt í Kaupmannahöfn um helgina, við Elín fórum aðeins í Fields á meðan Ragnheiður las námsbækur á laugardaginn. Síðdegis fórum við svo allar saman í bíó og sáum Rene hjerter, góð mynd bæði grátbrosleg og umhugsunarverð. Eftir poppát var lystin ekki mikil en við fórum samt og fengum okkur aðeins snarl og höfðum það huggulegt. Í gær fórum við Elín á þjóðminjasafnið, það er risastórt og engin leið að skoða það almennilega í eitt skipti. Víkingadeildin er lokuð til vors 2008 og þá ætlum við að fara aftur!
Svo var bara komið að því að kveðja og koma sér af stað heimleiðis. Fór af stað frá Köbin kl 16 og var komin hingað í sveitina kl 22:30.
Vikan framundan helguð fatasaum (það er valfagskennarinn sem er veikur) og ekki má gleyma barnfóstrustörfum í Viborg, þannig að bloggarinn er með mörg járn í eldinum þessa dagana!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 5. október 2006
Gamli íslenski
Það er svo brjálað að gera í bróderíinu að maður gefur sér ekki tíma til að blogga hvað þá annað. Reyndar hefur líka farið dágóður tími í að reyna að útvega gistingu fyrir okkur mæðgur í Kaupmannahöfn. Elín mín ætlar að koma í haustfríinu sínu og við munum skoða söfn og aðra menningarviðburði í höfuðborginni um helgina. Það er alltaf gaman að koma til Köbin svo að ekki slæ ég hendinni á móti þessu ferðalagi. Það reyndist þrautin þyngri að fá gistingu, það ku vera einhver sýning í Bellasenter. Það tókst þó í gærkvöldi að fá svefnpláss hjá íslendingum á Amager, vona að það sé í lagi.
Ég hefði ekki trúað að mér þætti svona gaman að sauma út, ég læri margar nýjar aðferðir og aðrar aðferðir sem ég kunni fyrir. Það var þannig í morgun að við áttum að sauma prufu með flettsyning sem mér sýndist strax vera gamli íslenski krosssaumurinn. Þetta var líka sá gamli en saumaður lóðrétt og frá sér, ég sagði auðvitað kennaranum að ég kynni miklu auðveldari aðferð, sem sagt lárétt. Fyrst taldi hún þetta alls ekki vera það sama en hún gaf eftir en bætti við að svona væri hann alltaf saumaður í Danmörku!
Fór í smá göngutúr áðan og nú fannst mér aðeins orðið haustlegt. Samt eru allsstaðar útsprungin blóm og hér fyrir utan skólann var slegið í gær. Mér finnst gaman að upplifa haustið hér, öll tré slúta undan ávöxtum, berjum og hnetum. Svo er reyndar minna huggulegt þegar þetta fer allt að hrynja ofan á höfuðið á manni!
Gott í bili
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 1. október 2006
Flakk
Ég var í fatasaum á þriðjudag og föstudag, en mið og fimm í litafræði einhverskonar. Þeim tíma var ekki sérlega vel varið verð ég að segja. Við vorum látnar búa litahringinn til með miklum málalengingum, tók óralangan tíma og næsta dag að klippa út og líma á blað. Ég hefði heldur viljað sauma ég er nefnilega að byrja á kápu, er búin með blússuna sem tókst alveg ágætlega. Nú er sem sagt aðal spenningurinn að fá að halda áfram með kápuna. Ég kláraði í dag að sníða og overlocka öll stykkin.
Ég fór á föstudaginn til litlu fjölskyldunnar á H.C.Andersensvej sem er eiginlega búin að taka mig að sér. Heimasætan hressti uppá háralit skólastúlkunnar sem var orðin við skulum segja mattur. Á laugardagsmorgni fór ég svo með lest til Árósa og hitti þar Ragnheiði og Jakop. Við flæktumst, um dálítið í búðum fengum okkur að borða á útiveitingahúsi mjög huggulegt alveg þangað til það kom úrhelli með þrumum og fíneríi. Síðan keyrðum við til Randers og höfðum það bara huggulegt. Hingað vorum við svo komin um hádegi og ég sýndi þeim skólann og svo drifu þau sig til Kaupmannahafnar.
Ég fór í stórhreingerningu hafði keypt mér Ajax, svo að nú er a.m.k. hreinlætisilmur. Þessi ákafi kom til af því að í herberginu var óþarflega mikið af pínulitlum flugum og eina ástæðan sem mér datt í hug fyrir veru þeirra hér hlaut að vera óþrifnaður. Nú er bara að bíða og sjá.
Á morgun byrjar nýtt valtímabil og nú hef ég valið að fara í smykker það er skilst mér allskonar skartgripagerð mjög spennandi. Síðan er bróderí alla vikuna og þá kemst ég vonandi e-ð áfram með myndina mína og kannski get ég líka þokað kápusaumnum áfram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 26. september 2006
Bíó
Fyrsti dagurinn sem ekki er sól og blíða, bara rigningarsuddi og blíða. Var við saumaskap í dag, fyrir utan stund sem ég notaði tila að undirbúa morgundaginn ég á nefnilega að sjá um morgunandaktina á morgun. Ég ætla að sýna landkynningarmynd að sjálfsögðu!!
Ég brá mér í bíó í gærkvöldi með 3 dönskum og sá danska mynd sem heitir Sprengfarlig bombe, ég skildi bara þó nokkuð og skemmti mér konunglega. Engar fréttir eru góðar fréttir, er það ekki alltaf sagt?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 24. september 2006
Þyrnirós
Sunnudagur næstum liðinn, dásamlegt veður líka í dag. Einhver hafði eftir veðurfræðingi að þetta væri heitasti sept í manna minni! Ég var alveg búin á því í gær þegar ég sá að hjólið var aftur vindlaust að framan, ég sótti það úr viðgerð á miðvikudagskvöld. Þá sagði viðgerðarmaðurinn að ég hefði fengið þyrni upp í dekkið og hann gert 5 göt á slönguna, ég var svo græn að ég hélt að hann hefði tekið þyrninn úr alveg óbeðinn. Maður skólasystur minnar kom hér við í dag( sá sem hjálpaði mér um daginn ) og eftir að hafa pumpað og hlustað og strokið dekkinu, fann hann þyrni sem var fastur í dekkinu. Hann dró þyrninn út og bætti fyrir mig dekkið, svo nú vona ég að þyrniraunum mínum sé lokið.
Í morgun sat ég í rólegheitum og hlustaði á rás 2 og Gest Einar í tölvunni á meðan ég saumaði blússuna mína, bara næstum eins og heima!
Ég fékk líka dönskutíma hjá einni skólasysturinni, las fyrir hana upphátt og hún leiðbeindi mér með framburðinn, ekki veitir af.
Í gær var ég í modelteikningu og ég verð að segja að aðrir eru betri í henni en ég, kannski kemur þetta með æfingunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 22. september 2006
Ferðalag og fleira
Þá er að koma sér að verki aftur. Undanfarnir dagar hafa verið mjög viðburðaríkir og skemmtilegir. Fyrst og fremst fórum við Ásbjörn í frábært ferðalag, eins og sumir vita finnst mér ekki leiðinlegt að ferðast. Við fórum á fimmtudag til bæjar sem heitir Lögstör og er sunnanvert við Limafjörðinn miðjan. Þar gistum við á fínu hóteli og keyrðum þaðan í ýmsar áttir næstu daga. Á föstudeginum keyrðum við beint yfir Limafjörðinn í norður og út að Skagerak, Jammerbugten. Þar skoðuðum við fallega strönd og áttum heiminn, ekki nokkur sála sjáanleg. Síðan keyrðum við til Hirsthals, þar skoðuðum við mjög skemmtilegt sædýrasafn, það ku vera eftir því sem segir í bæklingnum það stærsta í Evrópu. Næst lá leið okkar til Skagen, fórum fyrst í bæinn, röltum og skoðuðum gömul hús, fórum síðan á Skagen museum, þar eru myndir eftir Michael og Önnu Ancher og P.S. Kröyer. Sumar þeirra kannast maður við og mest mjög gaman að skoða. Þá var komið að aðal stað dagsins, Skagen. Við fórum á bílastæðið að ná í bílinn, var þá ekki búið að sekta okkur fyrir að borga ekki í bílastæðasjóð Skagen bæjar 510 dkr takk. Við höfðum hvorugt tekið eftir neinu sem benti til þess að það ætti að borga, svo að eftir þetta var ætíð gætt vandlega að öllu slíku. Við komumst til Skagen, gengum út á oddann og út í sjóinn, það er alveg frábært því að öldurnar koma úr tveimur áttum að manni bæði frá Skagerak og Kattegat. Ég hef alveg gleymt að nefna að þennan dag var 25 stiga hiti og við hjónin auðvitað á stuttbuxum.
Á Laugardeginum var aftur ekið á sama stað yfir Limafjörðinn og stefnan tekin á Hanstholm. Þar skoðuðum við höfnina, fórum út á allar bryggjur eins og siður er þorpara að vestan, sáum Norrænu meira að segja. Síðan leituðum við lengi að bænum en komumst að því staðurinn er bara smábær, höfðum af einhverjum ástæðum aðrar hugmyndir! Næst fórum við áfram í suður skoðuðum þorp við sjóinn þar voru nokkuð margir á sjóbrettum (heitir kannski e-ð annað). Allavega lét fólkið vindinn bera sig með einum eða öðrum hætti. Flestir voru með segl en einn var með einhverskonar fallhlíf sem vindurinn þeytti áfram, það var ótrúlegt að sjá hvað strákurinn var flinkur að stýra græjunni. Áfram héldum við til enn minni þorps sem heitir Lildstrand, þar var athyglisverðast að finna krækiber og þau voru svo stór og góð!!! Það var líka mjög gaman að sjá hvað landslagið er ólíkt þarna því sem ég hafði áður séð af Danmörku. Hólar og hæðir, en miklu grónara en ég hafði ímyndað mér.
Ekki slógum við slöku við á sunnudaginn, þá var haldið til eyjarinnar Mors í Limafirðinum. Þangað fórum við með ferju og það er sú allra stysta sigling sem ég hef farið held hún hafi ekki náð 5 mín. Þar duttum við niður á steina og steingerfingasafn, sáum margra miljarða gamla steina. Síðan fórum við á mjög skemmtilegt safn sem heitir Skarregaard. Það er gamall bær sem er eins og hann var fyrir 1950, þá var komið vatn í þvottahúsið og rafmagn. Þarna voru margir fallegir munir, en mest fannst mér gaman að sjá þvott sem hékk á snúrum, það voru mest bróderuð kvenundirföt, ótrúleg vinna sem lögð hefur verið í það sem enginn eða fáir sáu! Næst lá leiðin til Nyköbing, þar skoðuðum við stórt safn í gömlu klaustri, einhvernvegin vorum við bæði hálf úthaldlítil þar, sennilega búin að fá nóg. Þar var þó eitt mjög skemmtilegt, maður opnaði dyr, fór inn í herbergi sem átti að vera kapella og við fyrstu sýn var eins og fólk sæti á kirkjubekkjunum, en þegar betur var að gáð voru þetta brúður og heldur óhrjálegar að sjá. Síðan héldum við aftur til Lögstör um Skive. Það kom okkur mjög á óvart hversu erfitt reyndist að fá kaffi, þurftum að leita með logandi ljósi í hvert sinn sem okkur langaði í sopa.
Á mánudaginn var mér svo skilað hingað til Skals og Ábbi keyrði til Köben til Ragnheiðar og Jakobs.
Fatasaumur var verkefni vikunnar, grunnsniðagerð og fleira. Á miðvikudagskvöld fengum við að gera smáhluti úr postulíni, ég gerði tölur og perlur og e-ð sem ég veit ekki alveg hvað verður. Næsta miðv. höldum við svo áfram. Í gærkvöldi fórum við til Viborgar á fyrirlestur hjá einum þekktasta prjónahönnuði Dana Marianne Isager, hún sagði mjög vel frá, sýndi myndir frá ferðum sínum til Perú og víðar og hvernig hún tengir saman það sem hún sér og munsturgerð sína. Hún er með heimasíðu sem gaman er að skoða www.isagerstrik.dk.
Veðrið hefur verið svo ótrúlega gott 20-25 stiga hiti svo það var ekki hægt annað en að fara í langan hjólatúr í gær, í dag fór ég til Viborgar, hitti Ö.B og spókaði mig á ermalausum bol og pilsi í blíðunni, þvílík dásemd dag eftir dag. Á morgun er modelteikning fyrir þá sem það vilja og ég ætla að prófa.
Jæja ætli þetta sé ekki bara gott í bili, bestu kveðjur!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 11. september 2006
Teikning
Veðrið hefur verið mjög gott undanfarna daga, vonandi verður það eins áfram. Fór í góðan hjólatúr eftir bloggið í gær. Í dag var líkamsræktin hins vegar magadans undir arabískri tónlist. Ein skólasystirin sú sem sýndi magadans um daginn bauðst til að kenna okkur. Auðvitað fannst mér sjálfsagt að prufa. Við hristum okkur í einn og hálfan tíma og merkilegt nokk, þetta tók bara á. Ég hafði mjög gaman af og held að magadans ætti að vera skyldufag í handavinnuskólum og kannski grunnskólum!
Skóladagurinn var líka skemmtilegur, við vorum í valfaginu teikningu. Bodil lét okkur teikna líkama, svo fætur frá hné, í skóm. Síðan settumst við hver á móti annarri og teiknuðum munna og augu.
Næstu daga er bróderí og valfag aftur á fimmtudaginn. Mikið er ég farin að hlakka til að fá eiginmanninn í heimsókn á fimmtudaginn, við ætlum í reisu norður á Skagen og fleira.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 10. september 2006
Sunnudagur
Í gær lagði ég land undir fót, hjól undir þjó, fór til Hvolris. Þar er járnaldarbær, þ.e. hús sem eiga að vera byggð á svipaðan hátt og hús voru byggð á járnöld. Þarna var líka fólk að ýmsum störfum, klætt eins og talið er að hafi verið tíska á járnöld. Mest fannst mér gaman að hitta konu sem sat og saumaði vattarsaum. Hún spjallaði og sýndi mér 3 útgáfur af þessu forna handbragði. Við vorum látnar gera eina vattarsaumsprufu í kennó í den svo að ég kannaðist við aðferðina, enda var sú gamla upprifin yfir því að ég skyldi þekkja vattarsaum. Þarna var líka markaður með ýmsum munum og ég keypti mér einiberjaviðartölur á peysuna sem ég er að prjóna. Á heimleiðinni kom ég við í búð sem dönsk listakona Eva Jessen rekur, þar er hún með málverk eftir sjálfa sig, ragú brenndan leir eftir aðra og mikið af Marimekko vörum. Hjólaferðin var í allt ca 18-20 km og tók alls 4 tíma.
Þegar ég kom heim var ég svo heppin að ég fékk hjálp við að setja myndir í tölvuna og svo á síðuna mína. Þannig að nú eru komnar myndir.
Ég ætlaði bara að vera dugleg og sauma út í dag en ég held ég drífi mig aðeins út í hjólatúr sólin skín svo fallega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigga í Skals
Myndaalbúm
Tenglar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar