Laugardagur, 9. september 2006
Síðasta vika
Laugardagsmorgunn kl 10, ég er búin að lesa Moggann á netinu með kaffisopa sem ég lagaði sjálf ummmm! Ég hef verið að hugsa um hvað tæknin er frábær, ég ber nefnilega stundum saman vistina í Þýskalandi fyrir tæpum 30 árum. Þá sendu mamma og pabbi nokkra Mogga með löngu millibili og auðvitað voru þeir orðnir margra daga gamlir. Fyrir utan nú skypið, maður getur blaðrað eins lengi og maður vill án þess að borga krónu fyrir. Horft á fréttir í sjónvarpi og hlustað á útvarp, ótrúlegt.
Vikan var tileinkuð buxum, ég bjó til grunnsnið, breytti því, sneið og saumaði. Þetta var frekar létt þar sem ég hef oft saumað buxur. Það fór þó ekki svo að ég lærði ekki eitthvað. Ég lærði betri aðferð við að setja rennilása í pils og ósýnilegan hafði ég aldrei sett í neitt. Nú á ég nýjar flauelisbuxur, mjög fínar.
Morgunandaktin var með ýmsu móti þessa viku,t.d. var sýnd mynd um konu sem byggði hús (kofa) uppi í trjám, við festum tölu á efni og kennarinn sagði okkur hvers vegna talið væri að karlar hneppa til hægri og konur til vinstri. Skýringuna sagði hún vera að um 13- 1400 hefðu hermenn fengið leyfi til að hlýja hægri hönd sinni með því að stinga henni inn í jakkann. Ég benti henni á aðra skýringu nefnilega þá að karlar klæddu sig sjálfir en konur voru klæddar (þjónusta). Það var líka sagt frá sýningu þar sem listamennirnir höfðu lagt allt upp úr endurnýtingu. Auðvitað sungum við um landbúnaðinn t.d. 10 erindi á föstudaginn!
Á miðvikudaginn fór ég heim með skólasystur minni henni Birthe. Hún hafði samið við manninn sinn hann Mogens að laga fyrir mig hjólið mitt. Þau eiga heima í bæ sem heitir Örum, þangað er um 20 mín akstur, svo að hún bauð mér að gista. Eftir huggulegann kaffisopa í fallegri stofu fórum við í göngutúr um Öbakken. Það er mjög fallegt svæði með hærri hæðum en ég átti von á í Danmörku, yndislegu lyngi og trjám sem eru þó ekki þéttari en svo að maður sér hæðirnar vel. Þarna var fé á beit og sást vel til næstu bæja. Þegar við komum til baka var Mogens búinn að laga hjólið, losa handbremsuna frá og smyrja . Síðan elduðu þau hjón þá bestu aspas súpu sem ég hef smakkað og grilluðu kjöt alger veisla. Eftir matinn kenndi Birthe mér að flétta pappírskörfu og band úr hjólaslöngu.
Á miðvikudaginn var litteratur tími, hann var að mestu um norræna goðafræði svo að nú skildi ég heilmikið gat meira að segja sagt hvenær íslendingar urðu kristnir. Hann talaði um æsi, jötna, Óðinn, Þór og allt sem þessu tengist.
Á fimmtudaginn eftir skóla kom ekki annað til greina en að skella sér á bak gullfáknum. Ég hjólaði að golfvelli hér í grenndinni, ferðin tók klukkutíma og mér telst til að þetta séu einir 15 km. Það er skemmst frá því að segja að það er betra að hjóla þegar hjólið er ekki í bremsu, þetta var bara frábært.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 4. september 2006
Frárennslismál
Kökkenduksene (umsjónarmenn í eldhúsi) gengu auðvitað frá eftir morgunmat. Morgunandakt var á sínum tíma og eftir söng um hauststörf í sveitum sagði önnur skólastýran hún Helle okkur frá dönskum hönnuði. Sú hét Nanne Ditzel (nokkurnveginn rétt ). Hún hannaði húsgögn, skart, skraut, föt o.fl. Nanne var upp á sitt besta á 6. til 9. áratug síðustu aldar, virtist nokkuð frumleg og hugmyndarík.
Í skólanum var farið í gegnum buxnagrunnsnið og ég var alveg búina að gleyma öllu síðan í Kennó, enda ekki notað fræðin síðan og mun sjálfsagt lítið nota þessa kunnáttu í framtíðinni. Enn það getur komið sér vel að eiga gott grunnsnið (Políanna). Á morgun kemur svo í ljós hvort herlegheitin eru nothæf.
Eftir skóla stormuðum við íslensku konurnar í klukkutíma göngu í hífandi roki, rétt sluppum við rigningu, sem líka hefur verið nokkuð drjúg. Maður hélt að hér væri endalaus blíða!!
Ég hlýt að hafa verið stungin um helgina af enhverri flugu, því að handarbak hægri handar hefur verið tvöfalt síðan á sunnudagsmorgun. Held að bólgan sé á undanhaldi því ég er farin að geta kreppt fingurna átakalítið. Ég sem hef alltaf haldið því fram að flugur litu ekki við mér.
Það horfir til stórvandræða hér á skólanum vegna frárennslismála. Nú hefur ekki verið hægt að þvo síðan um næst síðustu helgi, vegna þess að pumpa í niðurfallinu er biluð. Námsmeyjar snúa því klæðum sínum við og nota á röngunni þar til úr rætist. Ég veit ekki hvort þetta tengist mér eitthvað, þetta er jú þriðja frárennslis/klóakkmálið í mínu lífi.
Gott í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 3. september 2006
Helgin
Fimmtudagur og föstudagur liðu við mynsturgerð og bróderí. Eftir skóla á föstudaginn fórum við Ragnheiður skólasystir í leiðangur. Við ákváðum að taka strætó í hina áttina eins langt og hægt væri. Við fórum til bæjar sem heitir Farsö og skoðuðum okkur aðeins um á milli ferða, mest í verslunarmiðstöð sem þar var, vegna þess að það rigndi svo hrikalega. Var samt alveg þess virði, bærinn stærri en við áttum von á. Síðan rólegt kvöld.
Á laugardagsmorgun snemma tók ég strætó til Viborgar, mætt til Ö.B. kl rúmlega 9 ( eins og kunnugt er eru strætóferðir strjálar). Við drukkum saman morgunkaffi og fórum svo að skoða eina efnabúð og á loppumarkað. Hann var risastór útimarkaður með allskonar geymsludóti, húsgögnum, skrauti o.fl. Síðan fórum við á bæjarrölt en það var mest hlaup milli búða því að það rigndi þvílík ósköp. Höfðum það svo huggulegt, spjölluðum og prjónuðum. Eftir nóttina töldum við að fyrsta haustlægðin hefði gengið yfir Viborg því að það var mjög hvasst og rigndi mikið. Í morgun drifum við okkur á Husflidsmesse (handverkssýningu). Þar var margt að sjá en eins og oft vill verða margt það sama og margt fólk.
Næsta vika verður fatasaumsvika hjá mér, við eigum að gera grunnsnið af buxum og blússu og síðan sauma. Ég á líka að vera aðstoðarkona í eldhúsi, þá kemur maður aðeins fyrir mat, setur matinn fram og gengur frá á eftir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 30. ágúst 2006
Magadans
Eftir að hafa sungið einn sálm við fingrapolkalagið kom ein skólasystirin heldur betur á óvart. Hún sýndi grunnspor og hreyfingar í magadansi. Var í alklæðnaði magadansmeyja og lét okkur auðvitað dansa og dilla okkur. Skemmtileg tilbreyting.
Fórum síðan mjúkar og fínar í bóderi. Ég kláraði nálapúðann og er nú að finna mér nýtt verkefni, ekki sú klárasta í að teikna sjálf, en að klippa og líma, af því hafa kennarar áralanga reynslu eins og kunnugt er.
Eftir skóla fórum við 3 íslenskar í göngutúr, varð nærri þriggja tíma túr, rétt náðum í mat (lífið snýst dálítið um matartímana). Við gengum alla leið að þorpi sem heitir Hjarbæk og þar kom í ljós mjög fallegt þorp, hefði sómt sér vel á póstkorti. Við gengum í sól og blíðu, en rétt eftir að við komum heim gerði þessa rosalegu rigningar skulfu, svipað og gerist stundum á suðrænni slóðum.
Rólegt kvöld, horfði á snilldarþátt í sjónvarpinu, hann heitir bændur og brúðir og gengur út á að koma bændum í hnapphelduna. Þeir ku víst vera margir sem hafa ekki tíma vegna bústarfa til að finna sér brúði. Athyglisvert vandamál, veit ekki hvort íslenskir bændur eiga við sama vandamál að stríða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 29. ágúst 2006
Broderi og danska
Í gær var valfagið í gangi og það er teikningin. Fyrsta verkefnið var að teikna gleraugu, kennarinn dró upp úr pússi sínu fult af gleraugum sem hún hafði keypt í Genbrug og dreyfði á okkur. Hún Bodil, teiknikennarinn, er mjög flink að láta manni finnast að maður sé dálítið góður að teikna. Segir t.d. þegar eitthvað er frekar mislukkað að þetta sé mjög spennandi! Seinna verkefni dagsins var að teikna röndóttar flíkur hangandi á þvottasnúru. Nú var vandinn fólginn í fellingunum.
Eftir skóla skaust ég til Viborgar því ég hafði mælt mér mót við mann í fullorðinsfræðsluskólanum, en þegar þangað kom gat ég alls ekki munað nafnið á honum. Nú voru góð ráð dýr, ég rápaði um þennan risastóra skóla og leitaði að skrifstofu, klukkan var orðin 4 svo að það var gagnslaust, fann að lokum námsráðgjafa skrifstofur og fannst að ég hlyti að vera á réttum stað. Loks kom kona sem sagðist vera námsráðgjafi og ég skildi bara tala við sig. Hún taldi eftir að hafa talað við mig að ég ætti að fara á undirbúningsnámskeið, gallinn væri bara sá að það væri fullt, en hún ætlaði að setja mig á biðlista. Svo bætti hún við að ég gæti allavega komist að eftir jól! Þannig er sem sagt staðan núna ég bíð og vona að nokkrir hætti við , því að ég er númer 6 á listanum.
Morgunninn hófst með samkomu og einum sálmi, síðan var fyrirlestur um stafi og nafnaklúta í fatnaði og sængurfötum. Skemmtilegt það sem ég skildi.
Broderi er yfirskrift þessarar viku og ég ætla að klára nálapúðann og byrja á einhverju öðru, ekki alveg búin að ákveða hvað það verður. Ætla að hafa sem flestar tegBroderiundir af sporum í því.
Skrapp svo aðeins í bæinn og rápaði pínulítið. Síðan rólegheit, lagði ekki í að fara aftur á prjónavélina í bili.
Sæl að sinni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 27. ágúst 2006
Kláði
Aldeilis eftirmáli eftir að bíða eftir strætó á föstudagskvöldið. Agnarsmá mugga læddist undir bandið á sandalanum, það kom styggð að henni af því að sandalaeigandinn asnaðist til að hreyfa sig og þá er ekki að sökum að spyrja. Síðan hef ég verið með tvöfalda rist og nærri óbærilegan kláða, undrast mest hvað skinnið er sterkt, að ég skuli ekki vera komin í gegn!!
Helgin fór að mestu í prjónavélanámskeið, gærdagurinn ágætur. Í dag gekk hins vegar allt á afturfótunum. Ég ætlaði að gera afskaplega flott axlaskjól. Byrjaði mjög vel, lærði að gera fallegt mynstur og hvað eina, svo þurfti ég að færa lóðin þar sem afurðin náði niður á gólf, tókst ekki betur til en svo að ég missti of margar lykkjur til að það borgaði sig að pilla þær upp. Byrjað upp á nýtt og allt virtist vera í lagi, stóð aðeins upp til að teygja úr mér. Þegar ég kom aftur inn á prjónastofuna var þar allt í hers höndum, búið að rífa upp alla glugga, því það hafði allt í einu farið að rjúka úr vélinni minni. Hún var nú rifin úr sambandi og farið með hana út og prjónlesið með. Svo nú fannst mér nóg komið.
Í gærkvöldi var slegið upp veislu af því að kærasti einnar á afmæli á mánudaginn og hún vildi auðvitað elda fyrir sinn á nokkurn veginn réttum tíma. Kærastinn er færeyskur og þess vegna var boðið upp á kindalæri, mjög gott og harðfisk og grind á eftir!!!
Ég fann á tölvunni danska stöð sem spilar bara danska slagara misgamla og hef einsett mér að láta þetta dynja á mér eins og mögulegt er til að fá tilfinningu fyrir málinu, verð orðin fagmanneskja í rómantískum oratiltækjum ef svo heldur fram sem horfir.
Snilldin að geta horft á fréttir í ísl sjónvarpinu, sá Hjört minn og heyrði, flottur ungur maður með skoðun!
Venlig hilsen
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 25. ágúst 2006
Kennitala
Í gær var ég í valfaginu teikningu. Það var mjög gaman, við byrjuðum á að teikna teygjur, síðan slaufur og borða, að síðustu máttum við velja okkur fyrirmynd, það voru t.d. rætur, steinar, hrúðurkarlar o.fl.
Ég fór líka á skrifstofu Möldrup kommune og ætlaði að fá danska kennitölu, en þá vantaði mig norrænt flutningsvottorð að heiman. Ég gat bjargað því í gegnum tölvuna og faxað til þjóðskrár, nú vona ég að þetta verði í lagi. Ég ætla að fara á dönsku námskeið og til þess þarf ég kennitölu.
Svona leið nú afmælisdagurinn og ég fékk margar kveðjur og símtöl.
Í dag var síðasti fatasaumsdagurinn, ég kláraði pilsið fyrir hádegi og fór í kaupstaðarferð eftir mat. Hitti svo Önnu B. og við elduðum góðan mat saman í tilefni afmælisins. Kom heim með síðasta strætó kl 22:10.
Alltaf hlýtt og gott veður, hefur ekki rignt í 3 daga. Las í blöðunum að ágúst hefur verið sá blautasti í 40 ár.
Kærar kveðjur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 23. ágúst 2006
Pils og bókmenntir
Þar sem ég er að reyna að vera góður nemandi, beið ég að mér fannst í allan dag prúð og stillt! Saumakennarinn hjálpar okkur eftir röð og ekkert múður. Fórum meira að segja í aukatíma milli 7 og 9 í kvöld, en nú get ég farið eftir skóla á morgun og haldið áfram. Á morgun er nefnilega fyrsti val tíminn, valið stóð milli teikningar og leirs. Ég valdi teikningu af praktískum ástæðum, ekki þungt að flytja heim og ég held að ég hafi meira og fjölbreyttara gagn af því vali.
Milli kl 10:30 og 12 hlustaði ég á fyrirlestur um danskan litteratúr, fyrirlesarinn lagði mest út af Grunthwig, sem segja má að sé upphafsmaður lýðháskólanna. Það sannaðist enn og aftur að eitthvað þarf að skerpa á dönsku kunnáttunni, hélt bara þræði stundum.
Bestu kveðjur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 22. ágúst 2006
Afrek dagsins
Dagurinn hófst líkt og þeir sem á undan eru gengnir með morgunsöng með kristilegu ívafi. Síðan hafði Lone útsaumskennarinn morgunandakt, las upp af blaði í 20 mín ýmislegt um útsaum undanfarin 1000 ár eða svo. Verð að viðurkenna þó að mér finnist efnið áhugavert þá missti ég nú þráðinn af og til . Fannst þetta ekki ganga upp kennslufræðilega.
Síðan var gengið til saumastofu og nú skyldi takast á við beklædning og vonandi eru þetta bara byrjunarerfiðleikar, en mikið óskaplega þurfti ég að bíða oft og lengi. Eftir hádeigið hafði ég með mér prjónana.
Þegar skóla lauk fékk ég far með skólasystur minni og erindið að sækja gullfákinn. Hjólaði hingað þessa 12 km ( er ekki í æfingu ) og var ca 45 mín. Var eins og vígahnöttur þegar heim var komið enda alltaf mótvindur í Danmörku eins og sumir vita. Næst er bara að hjóla um nærsveitir, frábært frelsi!
Kvöldsólin er mjög falleg séð úr herbergisglugganum mínu, ég er á hverju kvöldi stödd í vísum Svantes "solen er röd og rundt og jeg er lige gaaed i bad" ótrúlega fallegt.
Kveðjur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 21. ágúst 2006
Samsetning
Jæja þá maður kominn með þráðlaust net, svo nú er hægt að skrifa á íslensku og blaðra á Skype.
Nýjustu fréttir af hjólamálum, þetta er nefnilega framhaldssaga mánaðarins!! Hjólin voru sett saman á stofugólfinu hjá Önnu Birnu á 3. hæð. Sendlarnir höfðu nefnilega trillað hjólunum þangað upp. Síðan fórum við prufutúr um nágrennið og fákarnir reyndust svona ljómandi vel, aðeins ískur í bremsum og smotteri og þvílík frelsistilfinning!! Á morgun ætla ég svo í annan leiðangur til að sækja gullmolann og hjóla honum heim þessa 12 km, ef ekki rignir eldi og brennisteini.
Fór nefnilega í göngutúr eftir kvöldmat í glampandi sól og blíðu, en eftir stutta stund opnuðust flóðgáttir himins, en sólin var svo lágt á lofti að hún brosti til mín undir skýin. Var eins og hundur af sundi eftir göngutúrinn.
Skólinn sem einhver hefði kannski haldið að væri aðalatriðið var fínn í dag, byrjuðum í fatasaum. Fyrst bjuggum við til grunnsnið i lítilli stærð, svo fullri stærð og að síðustu prufupils úr lérefti.
Bestu kveðjur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigga í Skals
Myndaalbúm
Tenglar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar